Juncker og May vilja hraða Brexit viðræðum

David Davis, Brexit-ráðherra Bretlands faðmar hér Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar …
David Davis, Brexit-ráðherra Bretlands faðmar hér Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, stendur við hlið Davis. AFP

Umræður um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu ættu að ganga hraðar á næstu mánuðum, segir í sameiginlegri yfirlýsingu Theresu May, forsætisráðherra Bretlands og Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

May og Juncker áttu kvöldverðarfund í Brussel í kvöld og sögðu hann hafa verið bæði „uppbyggilegan og vinalegan“. Áður hafa tvær umferðir samningaumræðna um útgöngu Breta siglt í strand og sagði Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í Brexit-viðræðunum, deiluaðila vera komna í sjálfheldu.

May og Juncker kváðust hafa átt uppbyggilegar samræður um fjölda mála er varða Evrópu og þær alþjóðlegu áskoranir sem blasa við, m.a. að viðhalda kjarnorkusamningunum við íran og að styrkja öryggismál í Evrópu  í baráttunni gegn hryðjuverkaógninni.

Barnier og David Davis, Brexit-ráðherra Bretlands, komu síðan inn á fundinn að sögn BBC og ræddu 50. grein Lissabon sáttmálans og eru þau Juncker og May sögð hafa verið sammála um að hraða viðræðunum.

Þrjú mál sem m.a. þarf að ná sátt um eru hversu mikið Bretland mun skulda ESB er það gengur úr sambandinu, framtíðarréttindi ESB borgara í Bretlandi og Breta í ríkjum ESB og loks hvað muni gerast á landamærum Írlands og Norður-Írlands við útgönguna.

Búist er við að þessi þrjú mál verði áberandi í viðræðum á fundi ESB ríkja sem hefst síðar í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert