Puigdemont fær frest til fimmtudags

Carles Puigdemont leiðtogi héraðsstjórnar Katalóníu.
Carles Puigdemont leiðtogi héraðsstjórnar Katalóníu. AFP

Ríkisstjórn Spánar hefur veitt leiðtoga Katalóníu, Carles Puigdemont, frest til klukkan 10 á fimmtudagsmorgun til þess að gefa það berlega til kynna hvort héraðið muni lýsa yfir sjálfstæði.

Á fundi með blaðamönnum í morgun sagði aðstoðar-forsætisráðherra Spánar, Soraya Saenz de Santamaria, að ríkisstjórnin harmi að Puigdemont hafi ekki svarað beiðni ríkisstjórnarinnar þar að lútandi.

Í síðustu viku sagðist Puigdemont ætla að lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu í kjölfar niðurstöðu atkvæðagreiðslu íbúa héraðsins. Skömmu síðar hætti hann við að lýsa yfir sjálfstæði og óskaði eftir viðræðum um framhaldið við spænsk yfirvöld.

Dómsmálaráðherra Spánar, Rafael Catalá, segir viðbrögð Puigdemont ekki gild og stjórnin eigi rétt á skýrum svörum varðandi afstöðu Katalóníu.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, varaði héraðsstjórn Katalóníu formlega við því í síðustu viku að hann kynni að nýta heimild í spænsku stjórnarskránni til að afturkalla sjálfstjórnarréttindi héraðsins. Rajoy sagði að stjórn sín hefði beðið héraðsstjórnina að útskýra hvort hún hefði lýst yfir sjálfstæði Katalóníu eða ekki. Spænsk stjórnvöld þurfa að leggja slíka beiðni fram til að geta gripið til þessa úrræðis og hún er því fyrsta skrefið í áttina að mögulegri afturköllun sjálfstjórnarréttindanna.

Héraðsstjórn Katalóníu fékk fimm daga frest, eða til hádegis dag til að svara því hvort hún hefði lýst yfir sjálfstæði, að því er fram kom í ræðu Rajoy á þinginu í síðustu viku. Sá frestur hefur nú verið framlengdur til fimmtudags.

Beiðni spænsku stjórnarinnar um skýringu er nauðsynleg til að hún geti nýtt grein 155 í stjórnarskránni sem heimilar henni að afturkalla sjálfstjórnarréttindi Katalóníu og setja héraðið undir beina stjórn frá Madríd. Javier Pérez Royo, stjórnlagasérfræðingur við Sevilla-háskóla, segir að stjórnarskrárgreinin veiti spænsku stjórninni heimild til leysa héraðsstjórn Katalónu upp, setja lögreglu héraðsins undir stjórn innanríkisráðuneytisins í Madríd og leysa upp héraðsþingið í Barcelona, að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins í síðustu viku.

Eftir að hafa gefið héraðsstjórninni tækifæri til að útskýra yfirlýsinguna þarf Rajoy að skjóta málinu til efri deildar þingsins þar sem flokkur hans, Þjóðarflokkurinn (PP), er með meirihluta. Þingnefnd þarf að samþykkja tillögu forsætisráðherrans um afturköllun sjálfstjórnarréttindanna áður en hún verður borin undir atkvæði í efri deildinni. Afgreiðsla tillögunnar gæti tekið viku til tíu daga, að því er AFP hefur eftir þingmönnum í efri deildinni.

Rajoy getur einnig lýst yfir neyðarástandi í Katalóníu til að skerða ferða- og fundafrelsi íbúanna með það að markmiði að koma í veg fyrir óeirðir sem gætu blossað upp ef héraðið verður svipt sjálfstjórnarréttindunum. Spænskir fjölmiðlar segja að ef Rajoy nýtir heimildina til að afturkalla sjálfstjórnarréttindi Katalóníu án þess að héraðsstjórnin svari beiðni hans um útskýringu sé líklegt að þing héraðsins lýsi formlega yfir sjálfstæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert