19 látnir í lifrarbólgu A faraldri

Yfirvöld í San Francisco hafa gripið til þess ráðs að …
Yfirvöld í San Francisco hafa gripið til þess ráðs að reyna að bólusetja heimilislausa til að draga úr faraldrinum. mbl.is/Árni Sæberg

19 hafa látist úr lifrarbólgu A í faraldri sem nú geisar í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum. Ríkisstjóri lýsti yfir heilsufarslegu neyðarástandi vegna faraldursins fyrir viku síðan. BBC greinir frá.

500 hafa smitast af lifrarbólgu A í Kaliforníu frá því í nóvember á síðasta ári, og er meirihluti þeirra heimilislausir einstaklingar. Um er að ræða næststærsta faraldur sem geisað hefur á 20 árum.

Lifrarbólga A, sem ræðst á lifrina, smitast yfirleitt með saurmengun, til dæmis í kynlífi eða með því að snerta mengaða hluti og innbyrða mengaðan mat.

Næstum öll 500 tilfellin hafa greinst í San Diego þar sem yfirvöld hafa reynt að leggja sitt af mörkum til að draga úr faraldrinum, meðal annars með því að sótthreinsa göturnar með klór og koma fyrir handþvottastöðvum.

Borgarfulltrúi hefur óskað eftir því að rannsakað verði hvort drykkjarvatn í borginni geti verið mengað af saurgerlum.

Tilfelli hafa þó einnig greinst í Santa Cruz, Los Angeles og San Francisco þar sem yfirvöld segjast hafa bólusett þúsundir heimilislausra við sjúkdómnum.

Yfirleitt deyr 1 af hverjum 100 sem fær lifrarbólgu A en dánartíðnin er hærri í Kaliforníu núna vegna þess hve viðkvæmur hópurinn er sem hefur verið að smitast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert