Bannað að mótmæla í Póllandi

Bannað er að mótmæla í Póllandi.
Bannað er að mótmæla í Póllandi. Amnesty International

Mótmæli eru bönnuð í Póllandi og verða ekki heimiluð fyrr en tillögur forseta landsins um breytingar á dómskerfinu verða teknar fyrir á dagskrá þingsins. Amnesty International hefur gefið út skýrslu um ástandið í Póllandi. 

Í skýrslu Amnesty International kemur fram að ríkisstjórn Póllands leggur allt kapp á að berjast gegn friðsömum mótmælendum til að koma í veg fyrir frekari mótmæli í landinu. 

Eftir að hafa synjað umdeildum tillögum þingsins um breytingar á dómskerfinu lagði forseti landsins fram sínar eigin tillögur í lok september 2017. Mótmæli verða ekki leyfð fyrr enn tillögurnar, sem margir telja enn vera ógn við réttarríkið og sjálfstæði dómstóla, verða teknar fyrir á dagskrá þingsins, segir í tilkynningu frá Amnesty International.

Skýrslan sem ber heitið Pólland: Á götum úti til að verja mannréttindi greinir frá því hvernig pólska ríkisstjórnin beitir aðferðum eins og eftirliti, árásum og lögsóknum til að koma í veg fyrir fjöldamótmæli.

Allt frá árinu 2016 hafa þúsundir streymt út á götur landsins til að mótmæla friðsamlega undirokandi löggjöf í Póllandi, m.a. um réttindi kvenna og áformuðum lögum sem ógna réttarríkinu.

„Þar sem pólsk stjórnvöld halda áfram að herða tök sín á dómskerfinu eykst andstaða almennings enn frekar. Stjórnvöld reyna hins vegar allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir frekari mótmæli. Lögreglan hefur eftirlit með, áreitir og jafnvel lögsækir mótmælendur fyrir það eitt að láta í sér heyra,“ segir Barbora Černušáková, rannsakandi Amnesty International, sem sérhæfir sig í málefnum Póllands, í fréttatilkynningu.

„Bæði Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið voru snögg að viðurkenna að synjun forsetans á löggjöf sem hefði gert sjálfstæði dómstóla að engu var fyrst og síðast fjöldamótmælum í landinu að þakka. Þessir mótmælendur þurfa nú á stuðningi alþjóðasamélagsins að halda í áframhaldandi baráttu sinni.“

Í júlí 2017 tóku þúsundir mótmælenda þátt í kröfugöngum í rúmlega 50 borgum vítt og breitt um Pólland til að mótmæla tillögum stjórnvalda um skerðingu á sjálfstæði dómstóla í landinu. Stjórnvöld brugðust við með lögregluaðgerðum í þeim tilgangi að hindra mótmælin og brjóta á tjáningar- og fundafrelsi mótmælenda.

Lögreglan reisti málmgirðingu til að halda mótmælendum fjarri og úr augsýn þingbyggingarinnar. Hundruð lögreglumanna vöktuðu svæðið daglega og beittu margvíslegum aðferðum til að koma í veg fyrir að fólk mótmælti, m.a. með því að umkringja fólk eða afkróa hóp af fólki, aðferð sem á ensku kallast „kettling“ þar sem götur eru girtar af og mótmælendum hótað og ógnað, bæði munnlega og líkamlega.

Amnesty International

Að kvöldi dags 18. júlí 2017 tók kona að nafni Klementyna myndir af mótmælunum. Hún sagði Amnesty International frá því að lögreglan hafi ráðist á sig. „Ég stóð bara þarna [við afgirta götu] þegar lögreglumaður greip fyrirvaralaust í mig og hrinti mér á umferðarljósastaur. Hann veitti mér högg í andlitið. Ég veitti ekki viðnám […] eftir þetta komu fleiri lögreglumenn á staðinn og lokuðu götunni þannig að ég var afkróuð.“ Síðar sagði lögreglan við fjölmiðla að Klementyna byggi ekki yfir neinum sönnunargögnum til að styðja við ásakanir sínar um lögregluofbeldi.

Undanþága fyrir tilteknar mótmælagöngur

Auk harkalegra lögregluaðgerða hafa pólsk stjórnvöld kynnt ný lög til sögunnar sem þrengja mjög að réttinum til fundafrelsis. Í desember 2016 samþykkti pólska þingið takmarkandi lög á fundafrelsi sem veita árvissum samstöðufundum forgang, þ.e. fundum sem eru skipulagðir af sama fólkinu, á sama stað, nokkrum sinnum á ári.

Á yfirstandandi ári hefur ríkisstjórnin veitt slíkum samstöðufundum forgang einu sinni í mánuði en þeir eru allir haldnir til stuðnings stjórnvöldum og til að minnast Smolensk-flugslyssins sem varð forsetanum Lech Kaczyński og 95 öðrum að bana árið 2010. Þessir samstöðufundir eru allir haldnir á kostnað annarra beiðna um að halda friðsama mótmælafundi sem er gróft brot á alþjóðlegum mannréttindalögum.

Þrátt fyrir bann gegn þessum mótmælafundum hafa friðsamir mótmælendur haldið áfram að skipuleggja mánaðarleg mótmæli á yfirstandandi ári sem andsvar við stuðningshópum stjórnvalda.

Fjölmargir mótmælendur hafa verið lögsóttir fyrir smávægileg brot eins og „afskipti af löglegum fundahöldum“ eða „fyrirlitleg afskipti af starfsemi trúfélaga“ þar sem fjöldafundum til stuðnings stjórnvöldum hefur verið lýst sem trúarlegri göngu.

Andrúmsloftið einkennist af ótta

Mótmælendur í Póllandi standa frammi fyrir öðrum hindrunum sem gera þeim erfitt um vik að tjá andúð sína á takmarkandi löggjöf í landinu. Auk þess að skerða fundafrelsi hafa yfirvöld í Póllandi enn fremur látið mótmælendur sæta hörðu eftirliti og öryggisgæslu, m.a. með því að veita þeim eftirför og birtast fyrirvaralaust á heimilum þeirra. Margir hafa sætt ákæru og verið lögsóttir.

„Pólsk stjórnvöld reyna að innleiða ótta meðal þeirra sem vilja mótmæla friðsamlega,“ segir Barbora Černušáková enn fremur í tilkynningu. 

Háskólanemi sem var ákærður fyrir að „takmarka frelsi fjölmiðla“ með því að mótmæla hátt í kringum fjölmiðlamann sem var í útsendingu á opinberum vettvangi í desember 2016 sagði við Amnesty International: „þeir eru sannarlega að reyna að hræða fólk svo það mótmæli ekki.“

„Það sýnir svarta mynd af Póllandi í dag þegar friðsamir mótmælendur eru bornir sökum um glæpsamlegt athæfi þegar þeir nýta tjáningar- og fundafrelsi sitt. Þessar lítilfjörlegu ákærur endurspegla það hvernig sífellt þrengir að hinu borgaralega samfélagi og það á að láta þær tafarlaust niður falla,“ segir Barbora Černušáková, segir í fréttatilkynningu frá Amnesty International en skýrsluna er hægt að lesa í heild hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert