Stakk rússneska útvarpskonu í hálsinn

Lögregla á vettvangi þar sem maður rést inns á útvarpsstöðina …
Lögregla á vettvangi þar sem maður rést inns á útvarpsstöðina Ekho Moskvy og stakk útvarpskonu í hálsinn. AFP

Lögreglan í Moskvu hefur handtekið árásarmann sem stakk og særði rússneska útvarpskonu alvarlega.

Maðurinn réðst inn á skrifstofu útvarpsstöðvarinnar Ekho Moskvy, sem er sjálfstætt rekin, og stakk Tatyana Felgengauer í hálsinn. Hún var flutt á spítala og er ekki í lífshættu. Tatyana hefur starfað hjá stöðinni í 10 ár. 

Veggspjald af starfsmönnum Ekho Moskvy. Tatiana Felgengauer, lengst til hægri, …
Veggspjald af starfsmönnum Ekho Moskvy. Tatiana Felgengauer, lengst til hægri, hefur starfað hjá útvarpsstöðinni í rúman áratug. AFP

Árásarmaðurinn úðaði gasi í andlit öryggisvarðar og komst þannig inn á skrifstofu stöðvarinnar.

Sjónvarpsstöð á vegum ríkisins ásakaði Ekho Moskvy nýlega um að vinna með yfirvöldum á Vesturlöndum í þeim tilgangi að dreifa út áróðri gegn Rússlandi. Fréttamaður BBC sem staddur er í Moskvu greinir frá þessu.

Tatyana er ekki fyrsti starfsmaður Ekho Moskvy sem verður fyrir árás. Í síðasta mánuði ákvað blaðamaðurinn Yulia Latynina að yfirgefa landið eftir að hún varð fyrir árás þar sem saur var úðað yfir hana auk þess sem kveikt var í bíl hennar.

Mynd af árásarmanninum hefur verið birt á heimasíðu útvarpsstöðvarinnar.
Mynd af árásarmanninum hefur verið birt á heimasíðu útvarpsstöðvarinnar. AFP

Tilgangur árásarinnar í dag er ekki kunnur. Starfmenn útvarpsstöðvarinnar segja að árásarmaðurinn hafi ekki sagt neitt eða hrópað áður en hann lét til skarar skríða. Mynd af manninum, sem heitir Boris Grits, hefur nú verið birt á heimasíðu stöðvarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert