Yfirtaka héraðsþingið

Forsætisráðherrann Mariano Rajoy ræddi við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Forsætisráðherrann Mariano Rajoy ræddi við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag. Mynd / AFP

Í fyrsta sinn í lýðsveldissögu Spánar mun ríkisstjórn taka yfir eitt af sjálfstjórnarhéruðum landsins. Héraðsþingið í Katalónu samþykkti í leynilegri kosningu í dag að lýsa yfir sjálfstæði. Með því má segja að átökin á milli þjóðþingsins í Madridarborg og héraðsþingsins í Katalóníu hafi náð hámarki.

Öldungadeild spænska þingsins ákvað í kjölfarið að dæma atkvæðagreiðslu Katalóna ólöglega en fram hefur komið að saksóknarar á Spáni hyggist ákæra leiðtoga Katalóníu, Carles Puigdemont, fyrir uppreisn.

Gífurlegrar spennu hefur gætt í samskiptum héraðsstjórnar Katalóníu og stjórnvalda á Spáni eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram fór 1. október. Mikill meirihluti þátttakenda greiddi þá atkvæði með sjálfstæði en kosningin hefur verið dæmd ógild. Ólíklegt þykir að kosning héraðsþingsins hljóti sömu örlög fyrir stjórnlagadómstóli Spánar.

Þýsk stjórnvöld tilkynntu í dag að þau tækju ekki mark á sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóna en Bretland, Frakkland og Bandaríkin eru sama sinnis.

Spænsk yfirvöld hyggjast sem fyrr segir taka yfir stjórn héraðsþingsins og löggæslu í héraðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert