Ekkert mælir gegn þátttöku Puigdemont

Ríkisstjórn Spánar segir ekkert því til fyrirstöðu að fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, Carles Puigdemont , taki þátt í boðuðum kosningum. Ríkisstjórnin í Madríd hefur boðað til héraðskosninga í Katalóníu í desember.

Spænsk stjórnvöld sviptu þing héraðsins sjálfstjórn eftir að það samþykkti að óska eftir sjálfstæði frá Spáni á föstudag.

Puigdemont bað fólk um að veita lýðræðislega mótspyrnu við bein afskipti frá Madríd en hann ávarpaði Katalóníubúa í gær. Hann fordæmdi ákvörðun spænskra yfirvalda að svipta Katalóníu sjálfstjórn og hét því að vinna áfram að uppbyggingu frjáls ríkis. 

Tæp 90% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni um hvort lýsa ætti yfir sjálfstæði Katalóníu 1. október studdu sjálfstæði. Kjörsóknin var rúm 42% og margir katalónskir andstæðingar aðskilnaðar frá Spáni sniðgengu atkvæðagreiðsluna eftir að stjórnlagadómstóll landsins úrskurðaði að hún væri brot á stjórnarskránni.

Puigdemont sagði að í atkvæðagreiðslunni hefði katalónska þingið fengið „umboð þjóðarinnar“ til að lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu sem hann gerði í kjölfarið. 

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, tilkynnti í vikunni sem var að líða að Katalónía yrði svipt sjálfstjórnarréttindum sínum og héraðsstjórnin leyst upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert