Gæti fengið pólitískt hæli í Belgíu

Ríkisstjórn Spánar hefur svipt Puigdemont völdum í Katalóníu.
Ríkisstjórn Spánar hefur svipt Puigdemont völdum í Katalóníu. AFP

Ráðherra innflytjendamála í Belgíu segir það ekki óraunhæft að veita Carles Puigdemont, fráfarandi forseta heimastjórnar Katalóníu, pólitískt hæli í Belgíu.

Á föstudag tilkynnti forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, að þing Katalóníu yrði leyst upp og að leiðtogi héraðsins hefði verið sviptur völdum. Aðeins nokkrum klukkutímum áður samþykkti þing Katalóníu að lýsa yfir sjálfstæði héraðsins. Spænsk stjórnvöld hafa nú tekið yfir stjórn á öllum helstu stofnunum Katalóníu og undirbýr ríkissaksóknari nú ákæru gegn Puigdemont og fleiri katalónskum embættismönnum fyrir að hafa brotið spænsk lög.

Theo Francken, ráðherra innflytjendamála í Belgíu, sagði í viðtali á belgísku sjónvarpstöðunni VTM að það væri ekki óraunhæft ef horft væri á stöðuna, að veita Puigdemont pólitískt hæli í Belgíu. Sky News greinir frá.

„Það er verið að tala um að hann gæti fengið fangelsisdóm. Það er spurning að hve miklu leyti hann fái sanngjörn réttarhöld,“ sagði Francen í viðtalinu. Hann tók þó skýrt fram að ekkert hefði verið ákveðið í þessum efnum og að belgísk stjórnvöld hefði ekki nálgast Puigdemont með neinum hætti. „Ég er ekki að rúlla út rauða dreglinum fyrir hann,“ bætti hann við.

Belgía er eitt af fáum löndum innan Evrópusambandsins þar sem þegnar frá löndum sambandsins geta óskað eftir pólitísku hæli. Engar vísbendingar eru hins vegar um að Puigdemont hafi haft í hyggju að ferðast til Belgíu.

Það andaði köldu á milli spænskra og belgískra stjórnvalda á níunda og tíunda áratugnum eftir að þau síðarnefndu neituðu að framselja spænskt par sem tengdist aðskilnaðarhreyfingu Baska (ETA).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert