Ráðgjafi Trumps játar lygar

Nefnd sem rannsakar meint afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum …
Nefnd sem rannsakar meint afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum hefur ákært að minnsta kosti þrjá sem tengjast kosningabaráttu Donalds Trump. AFP

George Papadopoulos, sem aðstoðaði Donald Trump í kosningabaráttunni í fyrra, hefur viðurkennt að hafa logið að fulltrúum alríkislögreglunnar um möguleg afskipti Rússa að kosningabaráttunni. Þetta kemur fram í dómsgögnum sem gerð voru opinber í dag. 

Papadopoulos var ráðgjafi Trumps í utanríkismálum í aðdraganda kosninganna. Hann játaði lygar sínar og að hafa falið tengsl við prófessor sem tengdist ríkisstjórn Rússlands sem bauð óhróður um Hillary Clinton meðan á kosningabaráttunni stóð. 

Í ákæru á hendur honum segir að með blekkingum sínum hafi Papadopoulos hindrað rannsókn alríkislögreglunnar á tengslum framboðsins við rússnesk yfirvöld. 

Papadopoulos gerði samning við alríkislögregluna í kjölfar játningar sinnar. Samningurinn og ákæran var birt í dag stuttu eftir að fyrrverandi kosningastjóri Trumps, Paul Mafort og viðskiptafélagi hans, Rick Gates, voru ákærðir fyrir svik við Bandaríkin með tengslum sínum við fylgismenn Rússa í Úkraínu. Eru þeir m.a. ákærðir fyrir að hafa skipulagt peningaþvætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert