10 létust og tugir særðust í sprengingu

Mikill reykur steig upp til himins eftir sprenginguna í verksmiðjunni.
Mikill reykur steig upp til himins eftir sprenginguna í verksmiðjunni. AFP

Að minnsta kosti 10 manns létust og um 40 til 50 manns eru alvarlega slasaðir eftir sprengingu í kolaverksmiðju á Indlandi. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka. Ekki er vitað hvað olli því að ketill sprakk. Björgunaraðgerðir standa enn yfir. 

Yfirvöld hafa þegar boðið fjölskyldum hinna látnu 200.000 rúpíur, eða rúmlega 300 þúsund íslenskar krónur, í skaðabætur.  

Slys á vinnustöðum eru mjög algeng á Indlandi þar sem skortur á öryggiseftirliti og öryggisreglugerðir eru af skornum skammti. 

Tæplega 10 þúsund manns létust í slysum tengdum rafmagni árið 2015, samkvæmt nýjustu tölum frá yfirvöldum.  

Á þriðjudaginn létust að minnsta kosti 13 manns í brúðkaupi þegar rafmagnsspennubreytir sprakk í veislusal. Einn af þeim sem lést var ólétt kona. Algengt er að mannskæð slys verði út frá rafmagni sem stafar meðal annars af lélegu viðhaldi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert