Prinsar handteknir í aðgerðum gegn spillingu

Krúnuprinsinn Mohammed bin Salman stýrir nýju stofnuninni sem berst gegn …
Krúnuprinsinn Mohammed bin Salman stýrir nýju stofnuninni sem berst gegn spillingu. Hann hefur töluverð völd, getur m.a. gefið út handtökuskipanir og tekið ákvörðun um farbann. AFP

Ný stofnun sem berst gegn spillingu í Sádi-Arabíu hefur handtekið ellefu prinsa, fjóra starfandi ráðherra og tugi fyrrverandi ráðherra. Greint er frá þessu á vef BBC, en ekki hefur verið upplýst á hvaða grundvelli mennirnir, sem hafa ekki verið nefndir á nafn, voru teknir höndum. 

Sádiarabíska sjónvarpsstöðin Al-Aarbiya segir hins vegar að rannsókn sé hafin á flóðunum í Jeddah árið 2009 og útbreiðslu MERS-veirunnar sem kom upp í Sádi-Arabíu árið 2012. 

Mennirnir voru handteknir nokkrum klukkustundum eftir að nýja stofnunin varð til með formlegum hætti. 

Krónprinsinn Mohammed bin Salman stýrir stofnuninni og hann hefur heimildir til þess að gefa út handtökuskipanir og leggja á farbann, að því er ríkisfréttastofan SPA greinir frá. 

Þá er búið að skipta út yfirmönnum í þjóðvarðliðinu og í sjóhernum. 

SPA segir að Salman konungur Sádi-Arabíu hafi rekið Miteb bin Abdullah, sem var yfirmaður þjóðvarðliðs landsins, og aðmírálinn Abdullah bin Sultan bin Mohammaed al-Sultan, sem var æðsti yfirmaður sjóhersins. Ekki hefur verið útskýrt hvers vegna þeir voru látnir fjúka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert