Bílaauglýsing kærastans sló í gegn

Búið er að aka bifreiðinni, sem er af árgerð 1996, …
Búið er að aka bifreiðinni, sem er af árgerð 1996, 141.095 mílur, sem samsvarar um 227.000 km. Skjáskot úr auglýsingunni

Hver er besta leiðin til að selja 21 árs gamla Hondu sem búið er að aka yfir 220.000 km? Mögulega er það að búa til flotta sjónvarpsauglýsingu með skotum úr lofti sem minnir um margt á auglýsingar fyrir glænýja bíla. Þetta gerði Max Lanman til að aðstoða kærustu sína við að selja bifreiðina sem er metin á um 499 dali, sem samsvarar um 50.000 kr.

Þegar kærasta hans vildi selja bifreiðina ákvað Lanman, sem starfar við kvikmyndagerð, að nota hæfileika sína til að búa til auglýsingu sér til skemmtunar. Hún sló í gegn og hefur farið sem eldur um sinu á netinu. Bifreiðin er til sölu á uppboðsvefnum Ebay og er hæsta boð nú hvorki meira né minna en 100.000 dalir, sem samsvarar 10 milljónum kr. 

Það á þó eftir að koma í ljós hvort um raunverulegt tilboð sé að ræða, en ljóst er að bifreiðin, Honda Accord sem eigandinn kallar Greenie, verður slegin á töluvert hærri upphæð en 499 dali. Þetta kemur fram á vef BBC.

Auglýsingin er í anda nýjustu bílaauglýsinga þar sem silkimjúk rödd segir frá kostum bifreiðarinnar og leikkona fengin til að aka Hondunni í Los Angeles. Nærmyndir sem sýna m.a. gamaldags kassettutæki, gúmmíendur og kaffikönnu sem er búið að festa í farþegasætinu. 

„Þú, þú ert öðruvísi,“ segir sögumaðurinn þegar auglýsingin byrjar. „Þú gerir hlutina á þinn hátt. Það er það sem gerir þig einstakan.“

Auglýsingin, sem er um ein mínúta að lengd, er uppfull af frösum á borð við: „Lúxus er hugarástand“.

Lanman segist hafa fengið hugmyndina þegar hann var að aka ásamt kærustu sinni, Carrie, eftir þjóðvegi 1 í átt að Big Sur þar sem þau ætluðu að fara í útilegu.

„Ég áttaði mig á því að það væri mjög fyndið að búa til bílaauglýsingu fyrir algjöra bíldruslu í svona glæsilegu umhverfi.“

Hann segir að það sé algjörlega sturlað hvernig auglýsingin fór út um allt á netinu.

„Það er furðulegt að hugsa til þess að eitthvað sem ég bjó til með vinum mínum, og var á tölvunni minni fyrir tveimur dögum, sé eitthvað sem allur heimurinn er að horfa á. Þökkum guði fyrir netið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert