Brotthvarf Hariris sé liður í ráðabruggi Bandaríkjanna

Saad al-Hariri.
Saad al-Hariri. AFP

Stjórnvöld í Íran segja að skyndilegt brotthvarf Saads al-Hariris úr stóli forsætisráðherra Líbanons sé liður í ráðabruggi til að auka á óstöðugleika á svæðinu. Ráðgjafi æðsta leiðtoga Írans sakar Bandaríkin og Sádi-Arabíu um að standa þarna að baki.

Hariri var staddur í Sádi-Arabíu er hann sagði í sjónvarpsávarpi að Íran bæri ábyrgð á því að sá fræjum ótta og eyðileggingar í nokkrum löndum, þar á meðal í Líbanon. Hann greindi ennfremur frá því að hann hefði ákveðið að segja af sér því hann óttaðist um líf sitt. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Faðir Hariris, Rafik al-Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, var ráðinn af dögum árið 2005.

Fréttaskýrendur segja að brotthvarf forsætisráðherrans muni leiða til pólitísks óstöðugleika í Líbanon og menn óttast að afsögn hans sé liður í valdabaráttu sjía-múslíma sem ráða lögum og lofum í Íran og súnní-múslíma sem ráða ríkjum í Sádi-Arabíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert