Kaus ekki „raupkjaftinn“

Feðgarnir George W. Bush yngri og George Bush eldri á …
Feðgarnir George W. Bush yngri og George Bush eldri á hafnarboltaleik nýverið. AFP

George Bush eldri, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, kaus Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata, í forsetakosningunum sem fóru fram í Bandaríkjunum á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýrri bók þar sem hann kallar núverandi forseta, Donald Trump, „raupkjaft“.

Sonur Bush, George W. Bush, sem er einnig fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, segist hafa áhyggjur af því að hann verði síðasti forsetinn úr röðum repúblikana, þrátt fyrir að Trump tilheyri flokknum. Greint er frá þessu á vef BBC.

„Þessi náungi hefur ekki hugmynd um hvað það þýðir að vera forseti,“ segir Bush yngri. 

Ummælin koma fram í nýrri bók sem heitir The Last Republicans, sem útleggja má á íslensku sem Síðustu repúblikarnir. Bandarískir fjölmiðlar hafa fengið að kynna sér valda kafla úr bókinni. 

Raupkjaftur (e. blowhard) er skammaryrði sem er gjarnan notað um þá sem eru mikið að stæra sig af einhverju eða eru stóryrtir. 

„Mér líkar ekki við hann. Ég veit ekki mikið um hann, en ég veit að hann er raupkjaftur. Og ég er ekkert sérstaklega ánægður með að hann skuli vera leiðtogi,“ segir Bush eldri, sem var forseti Bandaríkjanna frá 1989 til 1993.

Bush eldri sagði jafnframt við höfund bókarinnar, Mark Updegrove, að hann hefði á tilfinningunni að Trump hefði boðið sig fram því hann væri með svo mikið sjálfsálit, að því er greint er frá í bandarískum fjölmiðlum, m.a. CNN og New York Times. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert