Lét ekki slá sig út af laginu

Skjáskot af Facebook

Áströlsk sjónvarpsfréttakona hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu gagnvart karli sem áreitti hana úti á götu.

Maggie Raworth er fréttakona hjá Nine News og var að undirbúa sig fyrir útsendingu þegar maðurinn hóf áreitið í borginni Ballarat í Victoria. Atvikið var tekið upp en þar sést maðurinn áreita Raworth og tökumanninn munnlega. Meðal annars sagði hann þeim að fá sér alvöruvinnu og sagði að vart væri hægt að komast neðar í atvinnumálum en þau. 

Maðurinn lét ekki þar við sitja og beindi orðum sínum einkum að fréttakonunni sem svaraði honum á yfirvegaðan hátt: „Hvert er vandamál þitt herra? Hvað hef ég persónulega gert á þinn hlut?“ 

Síðan beinist upptakan að manninum og hefur Raworth fengið mikið lof fyrir að halda ró sinni þrátt fyrir dónaskapinn sem hún varð fyrir af hálfu mannsins. 

„Í hreinskilni sagt hélt ég að hann myndi slá mig og ég vildi ná upptöku af því,“ segir Raworth í viðtali við Nine News sem birti upptökuna. „Ég er örugg með sjálfa mig og hann valdi sér greinilega rangt fórnarlamb,“ bætti hún við.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert