Björgunarsveitir vinna nú í kapp við tímann

Björgunarsveitir vinna nú í kapp við tímann eftir að snarpur jarðskjálfti upp á 7,3 varð meira en 400 manns að bana á fjalllendu svæði í Íran, nálægt landamærum Írak, í gær.

Leita björgunarsveitir nú að fólki sem kann að leynast fast undir rústum húsa, en björg­un­araðgerðir gengu illa fyrst um sinn vegna skriðufalla. Vitað er til þess að rúmlega 7.000 manns hafi slasast í skjálftanum.

Jarðskjálftinn er sá mannskæðasti sem orðið hefur á þessu ári. Staðfest hefur verið að 413 hafi farist í Íran og 9 í Írak.

Flestir hinna látnu voru í  bænum Sarpol-e-Zahab , í vesturhluta Íran skammt frá landamærunum, sem og í öðrum hlutum Kermanshah-héraðs. Stærsta sjúkrahús bæjarins skemmdist illa í skjálftanum og gerði heilbrigðisstarfsfólki erfitt um vik að sinna særðum að því er íranska ríkissjónvarpið greinir frá. Konu og barni hennar var bjargað á lífi úr húsarústum í dag, en fjöldi bygginga í bænum hrundi í skjálftanum.

BBC segir rafmagnsleysi og skort á rennandi vatni vera fylgifisk skjálftans í nokkrum bæjum og þá hafi fjöldi fólks hafst við utan dyra í miklum kulda eftir að hús hrundu. Byggingar í þessu fjalllenda svæði þar sem Kúrdar eru í meirihluta eru flestar reistar úr leir og þola illa skjálfta eins og þann sem varð í gær.

„Við þurfum á skjóli að halda,“ sagði maður í Sarpol-e Zahab við ríkissjónvarpsstöðina. „Hvar er aðstoðin? Hvar er hjálpin?“

BBC hefur eftir einum hjálparsamtökum að um 70.000 manns þurfi á aðstoð að halda eftir skjálftann og fréttir hafa einnig borist af því að þúsundir þurfi einnig að dvelja utan dyra í nótt.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að samtökin séu reiðubúin að aðstoða sé þess óskað.

Björgunarsveitarmenn að störfum í Sarpol-e Zahab.
Björgunarsveitarmenn að störfum í Sarpol-e Zahab. AFP
Örvæntingin er mikil, en vitað er til þess að 413 …
Örvæntingin er mikil, en vitað er til þess að 413 hið minnst hafi farist í Íran og yfir 7.000 eru slasaðir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert