Yfir 200 látnir

Að minnsta kosti 207 eru látnir og yfir tvö þúsund slasaðir í Íran eftir að jarðskjálfti, 7,3 að stærð, reið yfir fjalllendi landamæra Íraks og Írans í gær. Björgunaraðgerðir hafa gengið illa vegna skriðufalla í kjölfar skjálftans.

Myndir sem hafa birst á Twitter sýna skelfingu lostna íbúa Sulaimaniyah, borgar í Norður-Írak, og hvernig rúður ganga til og frá í húsum þegar jarðskjálftinn reið yfir seint í gærkvöldi.

Á myndum frá nágrannaborginni Darbandikhan sést hvernig háir veggir og byggingar hrundu.

Í Íran er vitað um 207 látna og yfir 1.700 slasaða að sögn yfirmanns hjá almannavörnum í Íran, Behnams Saidi. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu margir eru látnir í Írak en talið að það séu að minnsta kosti 6-10. Verið er að setja upp þrjú neyðarathvörf í Kermanshah-héraði í Íran. 

Upptök jarðskjálftans voru 30 km suðvestur af Halabja, sem er í Kúrdistanhéraði í Írak, en skjálftinn reið yfir klukkan 21:20 að staðartíma. 

Almannavarnir í Íran segja erfitt að koma björgunarsveitarfólki til þorpa í fjöllunum þar sem vegir eru ófærir vegna skriðufalla.

Bæirnir Qasr-e Shirin og Azgaleh í Kermanshah-héraði urðu verst úti í skjálftunum. Um 30 hópar frá Rauða krossinum hafa verið sendir á skjálftasvæðið en hluti þeirra er rafvirkjar sem ætla að reyna að koma á rafmagni að nýju á þessum slóðum. 

Að minnsta kosti sex eru látnir í Sulaimaniyah í Írak og um 150 slösuðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert