Deilt um hvort yfirtakan sé valdarán

Yfirtaka hersins í Zimbabwe á völdum í landinu, sem og stofufangelsisvist Robert Mugabes forseta landsins minnir mest á valdarán. Þetta sagði Alpha Conde, forseti Gíneu og leiðtogi Afríkusambandsins í samtali við BBC.

Segir hann Afríkusambandið (AU) krefjast þess að stjórnarskrá Zimbabwe verði virt samstundis.

Herinn neitar því hins vegar að hafa framið valdarán og segir Mugabe öruggann og að viðbrögð hersins hafi beinst gegn „glæpamönnunum“ sem umkringi hann.

ESB hvetur til friðsamlegrar lausnar

Deilur höfðu verið uppi um það í landinu hver muni taka við af Mugabe á forsetastóli.

Hernum fundist sér ýtt til hliðar

Emmerson Mnangagwa, varaforseti Zimbabwe, var rekinn úr embætti í síðustu viku og í kjölfarið var Grace Mugabe, eiginkona hins aldraða leiðtoga talinn líklegasti arftaki hans. Segir BBC að með þessu hafi æðstu ráðamönnum hersins fundist sér vera ýtt til hliðar.

Mugabe, sem er 93 ára, hefur verið ráðandi í stjórnmálum í Zimbabwe allt frá því að landið hlaut sjálfstæði frá Bretum árið 1980.

Forsíðufrétt dagblaðsins Herald í Zimbabwe, sem maðurinn á myndinni heldur …
Forsíðufrétt dagblaðsins Herald í Zimbabwe, sem maðurinn á myndinni heldur á, fullyrðir að ekki sé um valdarán að ræða. AFP

Conde sagði þróunina sýna að herinn í Zimbabwe hafi „augljóslega reynt að taka völdin.“ Afríkusambandið hafi „verulegar áhyggjur“ af ástandinu og ítreki stuðning sinn við lögmætar stofnanir landsins.

Fréttaritari BBC í Zimbabwe bendir á að Egyptaland hafi verið rekið úr Afríkusambandinu eftir valdarán hersins þar í landinu árið 2013, þannig að vera kunni að herinn í Zimbabwe sé að reyna að forðast svipaða uppákomu með því að lýsa gjörðum sínum ekki sem valdaráni.

Beinst gegn glæpamönnunum sem umkringja Mugabe

Mikil spenna hefur verið í Zimbabwe og tók herinn í landinu yfir ríkissjónvarpið í landinu seint í gærkvöldi. Herforinginn Sibusiso Moyo tilkynnti þá í beinni útsendingu að herinn beindi aðgerðum sínum gegn „glæpamönnunum“ sem umkringi Mugabe.

„Herinn er ekki að taka yfir stjórn landsins,“ fullyrti hann og bætti við að Mugabe og fjölskylda hans væru heil heilsu og öryggi þeirra tryggt.

Frá því hefur mikið borið á herbílum á götum Harare, höfuðborgar Zimbabwe. Fréttir hafa einnig borist af því að byssuskot hafi heyrst í úthverfum norðurhluta borgarinnar þar sem Mugabe og fjöldi annarra ráðherra í stjórninni býr.

Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku greindi frá því í dag að hann hefði rætt við Mugabe í síma og að hann hefði sagst hafa það gott utan þess að hann væri í stofufangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert