Þingmaður káfaði á útvarpskonu

Al Franken.
Al Franken. Mynd/AFP

Öldungadeildarþingmaður hefur beðið útvarpskonu afsökunar á ósæmilegri hegðun. Konan, Leeann Tweeden, greindi frá því á vefsíðu útvarpsstöðvar þar sem hún vinnur að þingmaðurinn Al Franken hefði kysst hana gegn vilja hennar og káfað á henni þegar hún svaf. Þetta mun hafa gerist fyrir ellefu árum. Sky greinir frá þessu.

Þau Al Franken, sem er fyrrverandi stjórnandi skemmtiþáttarins Saturday Night Live, unnu saman árið 2006. Þau voru að búa sig undir að koma fram sem skemmtikraftar á sviði fyrir framan bandaríska hermenn í Afganistan, þegar fyrra atvikið varð. Tweeden segir að Franken hafi skrifað grínþátt sem hafi meðal annars falið í sér að þau kysstust. Hann krafðist þess að þau myndu æfa kossinn áður en þau kæmu fram. Það kærði hún sig ekki um og mótmælti.

„Hann sagði að leikarar yrðu að æfa allt og að við yrðum að æfa kossinn. Ég lét undan svo hann myndi hætta að hrella mig,“ sagði hún í færslunni. Hún lýsir því að þau hafi bæði farið með þær línur sem skrifaðar voru áður en hann hafi gengið að henni. „Hann tók um höfuðið á mér, þrýsti vörum sínum upp að mínum og tróð tungunni í munninn á mér,“ skrifar hún.

Hún segist hafa ýtt Franken í burtu en upplifað viðbjóð. Henni hafi liðið eins og hún hefði verið misnotuð. Í flugvélinni á leið heim frá Afganistan hafi Franken tekið mynd af henni sofandi þar sem hann káfaði á henni. Með frásögn sinni birti hún mynd af Franken þar sem hann sést brosa framan í myndavél um leið og hann setur hendur sínar á barm hennar, þar sem hún er sofandi.

Leeann Tweeden.
Leeann Tweeden.

„Mér leið aftur eins og ég hefði verið misnotuð.“ Hún hafi upplifað skömm og niðurlægingu. „Hvernig dirfist einhver að grípa um brjóstin á mér á þennan hátt og gera að því grín?“ spyr hún í færslunni.

Franken svaraði ásökununum um hæl. Hann sagði að hann hefði ekki upplifað kossinn á sama hátt og hún en að hann bæði hana afsökunar á framferði sínu. „Hvað myndina varðar, þá átti það augljóslega að vera fyndið en það var það ekki. Ég hefði ekki átt að gera þetta.“

Hann sagðist ekki muna aðdraganda myndarinnar en að það skipti ekki öllu máli. „Ég horfi á hana núna og fyllist andstyggð á sjálfum mér. Þetta er ekki fyndið heldur fullkomlega óviðeigandi.“

Tweeden segist hafa fyrirgefið Franken en afsökunarbeiðnin hefði mátt berast fyrr.

Franken, sem var kjörinn þingmaður 2009, hefur tekið undir kröfu um að siðanefnd þingsins skoði málið og segist munu verða samstarfsþýður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert