Vara við hryðjuverkaógn um jólin

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Bandarísk stjórnvöld uppfærðu í gær ráðleggingar til Bandaríkjamanna sem hyggja á ferðalög til Evrópu og vöruðu við aukinni hættu á hryðjuverkum um jólin og áramótin. Bandarískir ferðamenn hafa um árabil verið varaðir við hryðjuverkaógn í evrópskum borgum og ennfremur þar sem hátíðarhöld fara fram.

Fram kemur í frétt AFP að rifjað sé upp í uppfærðum varnaðarorðum bandarískra stjórnvalda að hryðjuverkaárás hafi þannig verið gerð á síðasta ári á jólamarkaði í Berlín, höfuðborg Þýskalands, og í næturklúbbi í Istanbul í Tyrklandi um áramótin. Er þar vísað til þess þegar tólf manns létu lífið í Berlín og 39 í Istanbul.

Hryðjuverkaárásir í Bretlandi, Finnlandi, Frakklandi, Rússlandi, Spáni og Svíþjóð sýni að bæði hryðjuverkasamtökin al-Kaída og Ríki íslams séu starfandi og geti framkvæmt slík voðaverk. Þrátt fyrir að stjórnvöld í Evrópuríkjum vinni að því að koma í veg fyrir árásir hafi utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna samt áhyggjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert