Google græðir milljónir á misnotkun barna

Gagnrýnendur YouTube telja fyrirtækið ekki vera nógu vakandi fyrir því …
Gagnrýnendur YouTube telja fyrirtækið ekki vera nógu vakandi fyrir því að fjarlægja efni sem sýni börn með óviðeigandi hætti. AFP

Google, sem er eigandi YouTube, græðir milljónir á myndböndum þar sem ung börn eru misnotuð og sem höfða til barnaníðinga.

Fyrirtækin Iceland, O2 og Which? eru meðal þeirra fyrirtækja sem hætt hafa að auglýsa á YouTube eftir að breska dagblaðið The Times sýndi fram á að vörur þeirra birtust framan við myndskeið sem sýndu ungmenni með „óviðeigandi“ og jafnvel „óhugnanlegum“ hætti.

Fjallað er um málið í Times í dag og sagt þar frá því að ein rásin, Toy Freaks, hafi fengið sjö milljarða áhorf frá því hún var sett á laggirnar 2011. Meðal þess myndefnis sem þar er að finna er myndband af grátandi sjö ára stúlku sem blæðir úr munninum á eftir að hún missti barnatönn.

Í smábarnafötum og hræddar með snákum

Önnur myndbönd sýna þá m.a. þessa sömu stúlku og níu ára systur hennar klæddar smábarnafötum og með snuð, þar sem verið er að hræða þær með lifandi snákum.

YouTube lokaði Toy Freaks í gær og sagði rásina brjóta gegn notendaleiðbeiningum miðilsins. Gagnrýnendur spyrja hins vegar hvers vegna rásinni hafi verið leyft að birta rúmlega 500 myndskeið yfir sex ára tímabil. Um tíma síðasta sumar var rásin sú rás sem fékk hvað mest áhorf á YouTube, en vinsældir rásarinnar hafa í för með sér að faðir stúlknanna hefur að öllum líkindum fengið milljónir punda í auglýsingatekjur.

Times segir að Toy Freaks, líkt og aðrar sambærilegar stöðvar, græði fé fyrir hvert þúsundasta skipti sem horft er á myndband þar sem auglýsingu er skeytt framan við. Greiningafyrirtækið Social Blade telur rásina því hafa hagnast um 8,7 milljónir punda á ári, sem feli í sér í takt við tekjudreifingarkerfi Google, að tæknirisinn hafi hagnast um 7,1 milljón punda á ári.

Nokkrar rásir sem sýna ungar stúlkur sem ekki hafa náð kynþroska eru enn á YouTube og rata til milljóna áhorfenda með því að nota lykilorð á borð við „hrekkur“. Börn eru því meðal þeirra sem horfa á myndböndin í sakleysi og telja þau ýmist skelfileg eða um prakkarastrik að ræða.

250 fyrirtæki hættu að auglýsa vegna hryðjuverkatengsla

Times segir um 250 fyrirtæki hafa hætt að auglýsa hjá YouTube í ár, eftir að blaðið greindi fyrirtækjunum frá því að auglýsingar þeirra birtust einnig með efni hryðjuverka- eða öfgasamtaka. Mörg þeirra tóku hins vegar að auglýsa þar á ný eftir að Google hét betri viðskiptaháttum. Þau fyrirtæki sem Times ræddi við í gær lýstu hins vegar hneykslan sinni á því að Google standi sig ekki betur í að fjarlægja óviðeigandi efni.

Þannig er mikið magn þess myndefnis sem birtist á rásum á borð við Toy Freaks greinilega sett þar inn af einstaklingum sem hafa óeðlilegan áhuga á börnum.  

Belinda Winder, réttarsálfræðingur og yfirmaður kynferðisglæpadeildar Notthingham Trent-háskólans, segir rásir á borð við þessa vera settar upp í því skyni að höfða til mjög ungra barna og einnig fullorðinna, „sem eru ekki bara barnaníðingar, heldur sem einnig eru með blæti sem byggir á sársauka og misnotkun.“

Tvírætt og á betur heima í klámmynd en á barnarás

Sagði hún myndefnið í mörgum myndbandanna vera „óþægilegt og ógeðfellt“ og að það að þau birtist á miðli á borð við YouTube, geri efnið ásættanlegra í huga fólks. „Innihaldið er tæknilega séð ekki ólöglegt, en það er mjög tvírætt og það er beiting myndavélarinnar einnig og á í raun betur heima í klámmynd en á barnarás.“

Times hefur eftir forsvarsmönnum samtakanna The Children’s Society  að myndefnið vekti óhug og að YouTube ætti ekki aðeins að fjarlægja það, heldur ætti fyrirtækið líka að tilkynna um efnið.

Fjöldi fyrirtækja á borð við Dropbox og Yamaha Music sögðu það vekja þeim verulegar áhyggjur er Times greindi þeim frá því að auglýsingamyndbönd þeirra birtust á undan myndböndum á Toy Freaks-rásinni.

YouTube segist hins vegar líta öryggi barna mjög alvarlegum augum og að fyrirtækið hafi hert á reglum sínum varðandi efni sem sýni börn. Ekki sé hins vegar alltaf ljóst að sá sem setti myndbönd þar inn hafi ætlað sér að brjóta reglurnar.

Chism, faðir stúlknanna tveggja, sagði ásakanir á hendur sér vera „fullkomlega falskar og með öllu tilhæfulausar“. „Ég er einstæður faðir tveggja dætra og orka mín fer öll í að tryggja framtíð þeirra. Ég hef verið heppinn með það að fjölskylda okkar hefur geta notið þessa einstöku ferðar og skemmt milljónum á YouTube á sama tíma,“ sagði Chism.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert