Mansal vaxandi vandamál í búðum rohingja

Rohingja-konur í Kutupalong flóttamannabúðunum í Bangladess. Konur og börn eru …
Rohingja-konur í Kutupalong flóttamannabúðunum í Bangladess. Konur og börn eru mikill meirihluti þeirra sem þar búa, en smyglarar leita sífellt nýrra fórnarlamba í búðunum. AFP

Umme Kulthum stóð uppi sem ekkja og ein aðeins 21 árs gömul. Hún vonaðist þá til að geta hafið nýtt líf í Bangladess, en var þess í stað neydd út í vændi. Mannréttindasamtök segja mannsal vera sívaxandi vandamál í flóttamannabúðum í landinu og að smyglarar leiti þar uppi ný fórnarlömb meðal rohingjasem flúið hafa frá Bangladess.

Meirihluti þeirra rúmlega 600.000 rohingja sem flúið hafa frá Búrma (Mijanmar) til Bangladess eru konur og börn. Margir flúðu með lítið annað en fötin sem þeir klæðast og eru því örvæntingarfullir að vinna fyrir sér með öllum mögulegum leiðum.

Flóttamenn sem eru fastir í troðfullri tjaldborg nærri landamærunum hafa hins vegar litla möguleika á hefðbundinni vinnu og því eru margir reiðubúnir að taka hverju því sem býðst. Þannig lenda fjölmargir í klóm smyglara að sögn IOM, alþjóðlegrar stofnunar fólksflutninga.

Maður ber spýtur í Thankhali flóttamannabúðunum. Fyrir marga landlausa flóttamenn …
Maður ber spýtur í Thankhali flóttamannabúðunum. Fyrir marga landlausa flóttamenn í búðunum, er tilhugsunin um að vinna fyrir sér nóg til tæla þá í gildru smyglaranna. AFP

Lofuð vinna sem húshjálp en neyddar í vændi

Ungar stúlkur eru sagðar í sérstökum áhættuhópi og hefur IOM á skrá hjá sér tilfelli þar sem flóttamenn hafa verið tældir með loforðum um hjónaband eða vinnu í stórborginni, en hafa þess í stað endað í nauðungavinnu eða vændi.

„Í einu tilfelli var hópi táningsstúlkna lofuð vinna sem húshjálp í [borgunum] Cox Bazar og Chittagong, en þess í stað voru þær neyddar í vændi,“ segir í yfirlýsingu IOM.

Kulthum missti eiginmann sinn í átökunum í Rakhine-héraði í Búrma. Hún varð síðan viðskila við foreldra sína og börn á leiðinni til Bangladess. Þegar hún kom í Kutupalong flóttamannabúðirnar gaf rohingja-karlmaður sig á tal við hana. Hann bað hennar og lofaði henni bjartri framtíð fjarri ömurleika flóttamannabúðanna. Þau giftu sig hins vegar aldrei og Kulthum, sem er ekki hennar rétta nafn, var þess í stað flutt í vændishús. Þar var henni gefið metamfetamín og hún neydd til að stunda kynlíf með allt að sjö karlmönnum dag hvern.

Hún komst síðar að því að maðurinn sem lofaði að giftast henni hefði fengið greitt andvirði 100 dollara fyrir að fara með hana þangað.

„Ég varð hrædd, en ég hafði ekki hugmynd um hvað biði mín,“ segir Kulthum við AFP fréttastofuna. „Ég var seld í vændi,“ bætir hún við og grætur við minninguna.

Rohingja-barn í Thankhali flóttamannabúðunum. Smyglarar reyna að skilja flóttamenn frá …
Rohingja-barn í Thankhali flóttamannabúðunum. Smyglarar reyna að skilja flóttamenn frá fjölskyldum sínum í allri ringulreiðinni sem einkennir komu þeirra til Bangladess. AFP

Beina sjónum sínum að konum og börnum

Smyglhringir sem sérhæfa sig í fólki hafa farið sístækkandi í takt við aukin flóttamannafjöldann og eru nú víða í búðunum.

Yfirvöld í Bangladess hafa komið á fót sérstakri lögreglusveit í Cox Bazar, sem beitir sér gegn smyglurunum, en mörgum þeirra tekst samt að komast undan jafnvel þó aðgangur að búðunum sé óheimill öðrum en flóttafólki og starfsmönnum.

„Smyglararnir sitja ekki auðum höndum. Þeir beina sjónum sínum að konum og börnum, sérstaklega þeim sem koma ein,“ sagði Ruhul Amin, sem fer fyrir lögreglusveitinni í Cox Baxar.

Þá reyna smyglararnir einnig að skilja flóttamenn frá fjölskyldum sínum í allri ringulreiðinni sem einkennir komu þeirra til Bangladess.

Á eftirlitsstöð sem sett var upp í strandbænum Teknaf fyrir mánuði síðan hefur þegar tekist að bjarga 30 konum og börnum úr klóm smyglara, að sögn Amins.

Nota fölsk vegabréf til að senda konurnar úr landi

Annar öryggisvörður sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði að upp hefðu komið mál glæpahringja sem notuðu fölsk vegabréf fyrir rohingja-konur sem síðan eru sendar úr landi.  Eru flestar þeirra sendar til Malasíu eða Miðausturlanda.

IOM hefur staðfest að stofnunin hafi frétt af rohingjum sem hafi verið smyglað úr landi.

Yfirvöld í höfuðborginni Dhaka hafa bannað rohingjum að yfirgefa flóttamannabúðirnar af ótta við að straumur flóttamanna berist þá til stærri borga Bangladess. Sérstökum eftirlitsstöðvum hefur því verið komið fyrir við vegi í nágrenni búðanna.

Rúmlega 20.000 rohingjum hefur þegar verið snúið til baka í búðirnar, en hjálparstarfsmenn segja að séu flóttamennirnir ekki fræddir um hættuna sem þeim stafi af mansali þá muni þeir halda áfram að reyna að komast á brott í leit að betra lífi.

Mohammad Hossain Shikder, sem vinnur hjá góðgerðarsamtökum í Bangladess, fræðir …
Mohammad Hossain Shikder, sem vinnur hjá góðgerðarsamtökum í Bangladess, fræðir hér flóttamenn um brögðin sem smyglarar beita. AFP

Koma alltaf með freistandi og trúanleg tilboð

Mohammad Hossain Shikder, sem vinnur hjá góðgerðarsamtökum í Bangladess, heldur úti vinnustofu í búðunum þar sem hann fræðir flóttamenn um brögðin sem smyglarar beita.

„Þeir koma alltaf upp með freistandi og trúanlegt tilboð. Eins og starf í fataverksmiðju eða hjónaband við efnaðri einstakling,“ segir Shikder við hóp 20 ungra manna og kvenna í Kutupalong.

„Stundum láta foreldrar sannfærast við að fá fyrirframgreiðslu upp á 40.000 taka (um 50.000 kr.) eða meira. Þeim eru seldir draumar um að kona geti jafnvel unnið sér inn 500.000 taka (617.000 kr. sem er óraunveruleg upphæð.“

Fyrir marga landlausa flóttamenn í búðunum, er tilhugsunin um að vinna fyrir sér nóg til tæla þá í gildru smyglaranna.

Kulthum flúði úr vændishúsinu mörgum mánuðum eftir að hún var seld þangað. Þegar hún kom til Kutupalong var hún hins vegar jafn blönk og einmana og áður. Hún snéri því aftur í vændisiðnaðinn og býr nú á skuggalegu hóteli í Cox Bazar.

„Ég vonast til að finna börnin mín og foreldra mína aftur einhvern tímann. Ég er að spara fyrir þau,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert