Karlrembu og áreitni mótmælt

Sænska þinghúsið/Riksdag.
Sænska þinghúsið/Riksdag. Wikipedia/Holger.Ellgaard

Yfir eitt þúsund konur sem starfa í sænskum stjórnmálum hafa skrifað undir skjal þar sem þær saka karla um kynferðislega áreitni og ofbeldi í tengslum við starf sitt.

Skjalið, I maktens korridorer, er birt í Svenska Dagbladet í dag og undir það rita 1.300 konur í sænskum stjórnmálum. Meðal kvenna sem skrifa undir er Lena Rådström Baastad, formaður Jafnaðarmannaflokks Svíþjóðar, og Maria Leissner, fyrrverandi formaður frjálslyndra, sem og þingmenn, fyrrverandi ráðherra og konur sem eru starfandi á öllum sviðum stjórnmála.

„Ég var 17 ára þegar stjórnmálamaður frá Stokkhólmi, sem er núna einn helsti frambjóðandinn í komandi kosningum, beitti mig kynferðislegu ofbeldi,“ segir ein þeirra. Aðrar konur lýsa ofbeldi og karlrembu eldri karla í stjórnmálum í garð kvenna.

Konurnar hvetja karla til þess að taka ábyrgð, takast á við vandamálið. Það sé ekki of seint fyrir stjórnmálaflokka að losa sig við frambjóðendur sem hafa gerst sekir um slíkt athæfi. 

Upphaf skjalsins má rekja til Facebook-síðu sem á orðið um fimm þúsund félaga í dag.

Í aðsendri grein ráðherra jafnréttismála, Åsa Regnér, í Svenska Dagbladet í gær voru stjórnmálamenn hvattir til þess að styðja konur í baráttunni gegn karlrembu og kynferðislegri áreitni í stjórnmálum. Regnér er eini kvenráðherrann í ríkisstjórn Svíþjóðar sem skrifar undir skjalið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert