Charlie Rose rekinn

Charlie Rose.
Charlie Rose. AFP

Fréttamaðurinn Charlie Rose hefur verið rekinn frá CBS-fréttastofunni eftir að greint var frá því í gær að átta konur hefðu sakað hann um kynferðislega áreitni.

Í tölvupósti sem starfsfólk CBS fékk stóð að samningi Rose, sem er 75 ára gamall, hefði verið rift og uppsögnin tæki gildi þegar í stað. Rose hafði starfað sem fréttamaður hjá fréttaskýringaþættinum 60 mínútur auk þess sem hann sá um morgunþátt á CBS.

Í tölvupóstinum kom enn fremur fram að ákvörðunin um uppsögn Rose hefði verið tekin í kjölfarið á óviðunandi hegðun.

Rose baðst afsökunar á gjörðum sínum þegar Washington Post greindi frá ásökunum kvennanna í gær. Hann sagði þó að ekki væri allt sem þær segðu nákvæmlega eins og hlutirnir hefðu gerst.

Meint atvik áttu sér stað frá tíunda áratug síðustu aldar og til ársins 2011. Konurnar lýstu því að Rose hefðu gripið í brjóst þeirra, afturenda og kynfæri. Einnig hefði Rose verið nakinn í kringum þær en konurnar unnu með Rose í samnefndum sjónvarpsþætti hans.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert