Dramatískur flótti hermanns

Hermaðurinn hleypur frá bílnum yfir að landamærunum.
Hermaðurinn hleypur frá bílnum yfir að landamærunum. AFP

Dramatískt myndband af norðurkóreskum hermanni sem skotið var á þegar hann flúði yfir landmærin til Suður-Kóreu hefur vakið mikla athygli.

Atvikið átti sér stað 13. nóvember í þorpinu Panmunjom.

Talsmaður hjá Sameinuðu þjóðunum sagði að norðurkóreskir hermenn sem skutu á manninn hafi brotið samkomulag um vopnahlé sem batt enda á Kóreustríðið með því að skjóta af byssum sínum yfir landamærin og fara yfir landmæralínuna, að því er BBC greindi frá. 

Hermaðurinn ók að landamærunum og var staddur á sameiginlegu öryggissvæði þegar hann hljóp yfir á svæði Suður-Kóreu með byssukúlur á eftir sér.

Svæðið er það eina á hinu 250 kílómetra löngu svokallaða herlausa svæði þar sem hermenn bæði frá Norður- og Suður-Kóreu sjást augliti til auglits. Svæðið er í þorpinu Panmunjom sem er vinsælt á meðal suðurkóreskra ferðamanna.

Hermaðurinn særðist í árásinni en suðurkóreskir hermenn komu honum til hjálpar. Ástand hans mun vera stöðugt. 

Norður-kóreskur hermaður fer yfir landamæralínuna.
Norður-kóreskur hermaður fer yfir landamæralínuna. AFP
Hermaðurinn liggur særður á suðurkóresku umráðasvæði.
Hermaðurinn liggur særður á suðurkóresku umráðasvæði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert