4.000 sænskar blaðakonur gegn áreitni

Yfirskrift sænsku blaðakvennanna er #DEADLINE.
Yfirskrift sænsku blaðakvennanna er #DEADLINE. Mynd/Skjáskot af vef SVT

Fleiri en 4.000 sænskar blaðakonur hafa skrifað undir áskorun gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni samhliða því að fjöldi frásagna um slíkt innan stéttarinnar var birtur undir yfirskriftinni #DEADLINE.  Áskorunin var birt í sænskum fjölmiðlum í dag, fyrst á vefsíðu SVT, sænska ríkisútvarpsins.

Emma Lindquist, einn frumkvöðlanna, kveðst í viðtali við SVT vonast til þess að áskorunin verði til þess að bæta heiminn.

„Ég vonast til þess að við getum horft til baka til haustsins 2017 og séð að það var þá sem við stýrðum skútunni í rétta átt,“ segir Emma í samtali við SVT.

Á síðustu vikum hafa konur í ýmsum starfsstéttum á Norðurlöndum tekið höndum saman og skrifað undir yfirlýsingar gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum, rétt eins og íslenskar stjórnmálakonur gerðu fyrr í vikunni.

Samhliða því hafa verið birtar frásagnir kvenna af kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Þúsund norskar tónlistarkonur birtu í dag yfirlýsingar í þarlendum fjölmiðlum þar sem kynferðisofbeldi er fordæmt.

Kynferðisleg áreitni innan fjölmiðlastéttarinnar í Svíþjóð hefur verið til umfjöllunar upp á síðkastið.

Í lok október var greint frá því að stærsta dag­blað Svíþjóðar, Aftonbladet, stæði frammi fyr­ir al­var­legu vanda­máli – kyn­ferðis­legu of­beldi og áreitni á vinnustað.

Tveir starfs­menn blaðsins voru kærðir fyrir nauðgun og á sama tíma var harðlega deilt á yf­ir­menn rit­stjórn­ar fyr­ir að leyfa áreitni á vinnustaðnum að viðgang­ast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert