Dómur fallinn í kannabissúkkulaðimálinu

Dómshúsið í Holbæk þar sem dómurinn féll.
Dómshúsið í Holbæk þar sem dómurinn féll.

Málfríður Þorleifsdóttir, íslensk kona sem er búsett í Danmörku, fékk í dag sex mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir aðild sín að „kannabissúkkulaðimálinu“, einu umtalaðasta fíkniefnamáli síðari tíma í Danmörku.

Hún segir að dómurinn, sem féll í héraðsdóminum í Holbæk, sé í takt við það sem hún átti von á, en saksóknari hafði farið fram á að Málfríður yrði dæmd í þriggja ára fangelsi.

Auk Málfríðar voru fjórir sakborningar í málinu, einn þeirra er Claus „Moffe“ Nielsen, sem fór fyrir hópnum sem framleiddi og seldi kannabisolíu í lækningaskyni og settu þau m.a. olíuna í súkkulaðidropa sem Málfríður framleiddi. Nielsen var dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið og eins árs skilorðsbundið fangelsi og hinir sakborningarnir fengu sex mánuði skilorðsbundna, eins og Málfríður.

Í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu og á mbl.is 1. nóvember síðastliðinn, lýsti Málfríður aðkomu sinni að málinu og tilurð þess að hún fór að framleiða og selja kannabis í samvinnu við Nielsen. Faðir hennar, Þorleifur Guðmundsson sjómaður, greindist með krabbamein í maga og vélinda árið 2014 og þau verkjalyf, sem honum voru gefin, slógu ekki á óþægindi hans. Hann hafði heyrt að krabbameinssjúklingar neyttu kannabisolíu sem verkjastillandi lyfs með góðum árangri og bað Málfríði um að útvega sér efnið. „Mér fannst virkilega erfitt að vera beðin um að gera eitthvað ólöglegt, en á sama tíma hikaði ég ekki eina sekúndu þegar hann bað mig um þetta; ég hefði gert hvað sem var til að láta honum líða betur,“ sagði Málfríður í viðtalinu.

Hún fékk kannabisolíu hjá Nielsen, kom henni til föður síns, og neysla olíunnar gerði líðan hans bærilegri síðustu mánuðina sem hann lifði. Í kjölfarið fóru þau Málfríður og Nielsen í samstarf ásamt þremur öðrum um að framleiða og selja kannabisolíu til krabbameinssjúklinga og fólks með aðra kvalafulla sjúkdóma. Sala og dreifing á kannabisefnum er ólögleg í Danmörku, upp komst um athæfið í september í fyrra og í kjölfarið voru fimmmenningarnir ákærðir fyrir brot á dönsku fíkniefnalöggjöfinni og á læknalögum landsins, en þau auglýstu og seldu kannabisolíuna sem lyf.

Málfríður Þorleifsdóttir.
Málfríður Þorleifsdóttir.

Spurð hvort hún sjái eftir aðild sinni, nú þegar dómur er fallinn í málinu, segist Málfríður ekki sjá eftir því að hafa útvegað föður sínum kannabisolíuna. „En ég hefði staðið öðruvísi að málum varðandi söluna til sjúklinganna, ég hefði líklega beðið eftir því að þessi sala yrði lögleg,“ segir hún og vísar þar til þess að frá og með næstu áramótum munu ný lög taka gildi í Danmörku sem kveða á um að næstu fjögur árin verði tilteknum sjúklingahópum gefinn kostur á að fá kannabisolíu í lækningaskyni og verður grannt fylgst með framkvæmdinni og hvort tilefni sé til að fyrirkomulagið verði að varanlegum lögum.

Lengra viðtal við Málfríði verður í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert