Robert Mugabe mun njóta friðhelgi

Forsetinn fyrrverandi í ræðustól á þingi Sameinuðu Þjóðanna, 21. september …
Forsetinn fyrrverandi í ræðustól á þingi Sameinuðu Þjóðanna, 21. september síðastliðinn. AFP

Robert Mugabe, sem lét af embætti forseta Simbabve á þriðjudag, mun njóta friðhelgi og verður ekki sóttur til saka fyrir meinta embættisglæpi sína. Einnig tryggja stjórnvöld öryggi hans og fjölskyldu hans. Þessi tilhögun mun hafa verið hluti af samningi sem Mugabe gerði áður en hann sagði af sér, samkvæmt heimildamönnum Reuter- fréttastofunnar.

Forsetinn fyrrverandi á að hafa sagt samningamönnum að hann vildi deyja í heimalandi sínu og að hann hefði engan áhuga á því að búa í útlegt það sem eftir væri. Heimildir herma að þetta hafi verið hinum 93 ára gamla Mugabe afar mikilvægt.

„Það var honum mjög mikilvægt að öryggi hans yrði tryggt og að hann gæti áfram dvalið í landinu“, segir heimildamaður Reuters. Einnig fór Mugabe fram á að öryggi eiginkonu hans, Grace Mugabe, yrði tryggt, en hún er mjög óvinsæl í landinu.

Tilraun Mugabes til þess að gera eiginkonu sína að eftirmanni sínum í forsetaembættinu varð einmitt kveikjan að valdaráni hersins fyrr í mánuðinum, sem setti af stað rás atburða sem að endingu lauk með afsögn Mugabes.

Heimildamaður Reuters innan ríkisstjórnar Simbabve segir að Mugabe hafi ákveðið að láta undan þrýstingi og segja af sér er hann áttaði sig á því að valið stóð á milli þess að segja sjálfur upp með reisn eða þess að vera fjarlægður úr embætti með skömm.

Mugabe mun vera útkeyrður á líkama og sál eftir atburði síðustu vikna og talið er að hann muni ferðast til Singapúr heilsu sinnar vegna á næstu vikum, í einskonar hvíldarinnlögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert