Sendir til Búrma eftir tvo mánuði

Börn á flótta bíða eftir mat í flóttamannabúðum rohingja í …
Börn á flótta bíða eftir mat í flóttamannabúðum rohingja í Bangladess. AFP

Flutningur rohingja frá Bangladess til Búrma hefst eftir tvo mánuði samkvæmt samkomulagi ríkjanna tveggja sem undirritað var í dag. Um 620 þúsund rohingjar hafa flúið undan ofbeldi hersins í Búrma til nágrannalandsins Bangladess frá því í ágúst. Í Bangladess hafast þeir við í flóttamannabúðum.

Utanríkisráðherra Bangladess og Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma, hittust á fundi í dag og í kjölfarið var samkomulagið undirritað.

Sameinuðu þjóðirnar segja að meðferð búrmíska hersins á rohingjum séu þjóðernishreinsanir. Í rannsóknarskýrslu Amnesty International sem gefin var út í gær segir að rohingjar hafi sætt ofsóknum og útskúfun í áraraðir í Búrma. Þeir hafi verið gerðir ríkisfangslausir með lögum á níunda áratugnum og að í Búrma sé litið á þá sem ólöglega innflytjendur frá Bangladess. 

Rohingjar hafa verið þvingaðir til að búa á afgirtum svæðum. Hermenn hafa kerfisbundið nauðgað konum og stúlkum, myrt fólk og kveikt í húsum þess.

Búrmíski herinn hefur hafnað þessum ásökunum. 

Rohingjar eru múslimar en flestir íbúar Búrma eru búddistar. 

Alls óvíst er hvað taki við hjá rohingjum verði þeir látnir snúa til baka til Búrma. Í frétt BBC segir að stjórnvöld í Bangladess vilji gefa skýrt til kynna að flóttafólkið fái þar ekki fasta búsetu. Áður en straumur þess til landsins hófst fyrir nokkrum mánuðum höfðust þegar um 400 þúsund rohingjar við í Bangladess.

Frans páfi er væntanlegur í heimsókn til Búrma þann 26. nóvember. Hann mun eiga fundi með yfirmanni hersins sem og Aung San Suu Kyi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert