Sakaðir um að sprauta börnin og gefa lyf

Hópur foreldra kom saman fyrir utan RYB-leikskólann í Kína til …
Hópur foreldra kom saman fyrir utan RYB-leikskólann í Kína til að mótmæla. AFP

Leikskóli í Peking í Kína er nú undir smásjánni vegna ásakana um að starfsfólk hafi sprautað börnin og gefið þeim lyf. Málið hefur að sögn BBC vakið mikla reiði hjá kínverskum almenningi og eru yfirvöld nú með málið til rannsóknar.

Leikskólinn er meðal skóla sem tilheyra RYB-menntastefnunni, sem er vel þekkt í Kína. Forsvarsmenn RYB hafa beðist afsökunar á málinu, en embættismenn í Peking vinna nú að öryggisrannsókn á öllum leikskólum í borginni.

Ekki er langt síðan starfsmenn leikskóla í Sjanghaí voru sakaðir um að hafa misþyrmt börnum illilega.

Sprautuð með óþekktu efni

Að minnst kosti átta börn í RYB-leikskólanum, sem er í Chaoyang-hverfinu þar sem efnaðra fólk býr, eru sögð hafa verið sprautuð með óþekktu efni. Hafa foreldrar greint fjölmiðlum frá því að þeir hafi uppgötvað nálaför á líkama barna sinn á undanförnum dögum og hafa myndir af nálaförunum verið birtar á samfélagsmiðlum.

Þá segja foreldrarnir að börnum þeirra hafi verið gefnar pillur eða einhvers konar lyf fyrir hvíldarstundina. Sagði faðir eins barnsins, í samtali við kínversku ríkissjónvarpsstöðina CCTV, að barn hans hafi sagt sér að dag hvern eftir hádegismat hafi því verið gefnar tvær hvítar pillur og sagt að „fara að sofa“.

Fjölmiðlar í Peking segja suma foreldra þá hafa gefið í skyn að kynferðisleg misnotkun hafi átt sér stað og að börnin hafi verið berháttuð. „Óþæg börn voru neydd til að standa nakin eða þá að þau voru læst inni í myrkvuðu herbergi á leikskólanum,“ sagði eitt foreldri við miðilinn Caixin Global.

Lögregla hefur lagt hald á upptökur úr eftirlitsmyndavélum og þá hefur þremur leikskólakennurum verið vikið frá störfum vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert