Fundu hauslausan hund

Enginn hefur tilkynnt um hund sem er saknað vegna málsins. …
Enginn hefur tilkynnt um hund sem er saknað vegna málsins. Mynd úr safni. AFP

Lögreglan í Buskerud, nágrannafylki Óslóar til vesturs, brást við tilkynningu frá íbúa í bænum Lier upp úr hádegi í dag en sá tilkynnti um hræ af dýri sem hann hafði fundið í garði sínum. Málið reyndist þó umfangsmeira en svo að eingöngu væri um dautt dýr að ræða.

Þegar lögregla kom á vettvang blasti við henni hauslaust hræ lítils hunds sem auk þess hafði verið flegið. André Kråkenes, aðgerðastjóri lögreglunnar í umdæminu, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að hræið hafi verið sent á dýraspítala til rannsókna og enn sem komið er hafi enginn hundaeigandi í Lier, eða nágrannabænum Drammen, tilkynnt um hund sem saknað er.

„Þetta er óhugnanlegur fundur,“ segir lögreglumaðurinn Trond Egil Grot í samtali við dagblaðið VG en lögreglan hefur gengið hús úr húsi í nágrenninu í dag og rætt við nágranna um hvort þeir hafi orðið varir við mannaferðir eða umferð sem tengst geti hundshræinu. Enn sem komið er hafa litlar upplýsingar fengist.

Netmiðillinn Drammen Live 24 greindi fyrst frá málinu og ræddi einnig við Grot. Haft er þar eftir honum að ólíklegt sé að annað dýr hafi leikið hundinn svo grátt og eins sé ljóst að honum hafi nýlega verið styttur aldur.

NRK greinir enn fremur frá því að veiðimaður hafi haft samband við miðilinn og greint frá því að hræið gæti eins verið af ref fremur en hundi og sé það algeng háttsemi við vinnslu refaskinna að hræ dýrsins sé skilið eftir á víðavangi, hauslaust og flegið, sem æti fyrir fugla. Þetta skýrir þó ekki hvernig hræið endaði í garði við hús í Lier þar sem íbúinn kannast ekkert við málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert