Neitar þjóðernishreinsunum

Rohingjar flýja ofbeldi sem herinn neitar að hafa beitt.
Rohingjar flýja ofbeldi sem herinn neitar að hafa beitt. AFP

Min Aung Hlaing, hershöfðingi í Búrma, sagði í Facebook-færslu eftir fund sinn með Frans páfa að hann hafi greint frá því við páfann að „engar þjóðernishreinsanir“ ættu sér stað í landinu. Hann sagði jafnframt að herinn starfaði í þágu friðar og stöðugleika í landinu. Frans páfi er í fjögurra daga heimsókn í Búrma en hann hefur lýst því yfir að hann hafi áhyggjur af rohingjum, sem væru múslimskir bræður og systur, vegna ofsókna sem þeir sæta í landinu.  

Bæði hafa Sameinuðu þjóðirnar sem og Rex Tillerson, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, fullyrt að her hershöfðingjans sem nefndur er Tatmadaw stundi þjóðernishreinsanir. Þær hafa  hrakið yfir 620 þúsund rohingja á flótta frá vesturhluta Búrma til Bangladess frá því í ágúst. 

Stjórnarherinn heldur áfram að neita athæfi sínu þrátt fyrir að fjölmargir flóttamenn hafi lýst þeim hörmungum sem þeir hafa sætt af hendi hersins sem fela í sér morð, nauðganir og íkveikjur svo fátt eitt sé nefnt. 

Yfirvöld í Búrma hafa neitað stórum hluta rohingja á flótta um ríkisborgararétt og segja þá „bengalska“ innflytjendur. 

Í síðustu viku sagði Amnesti International að vesturhluti Rakhine-héraðs væri „glæpavettvangur“ og lýsti jafnframt ofsóknum sem rohingjar sæta sem  „aðskilnaðarstefnu“. 

Límmiða af Aung San Suu Kyi, leiðtoga Búrma, og Frans …
Límmiða af Aung San Suu Kyi, leiðtoga Búrma, og Frans páfa má sjá á mörgum bifreiðum landsins í tilefni heimsóknar páfans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert