Mun stærri og kraftmeiri en fyrri flaugar N-Kóreu

Nýrri eldflaug norðurkóreska hersins skotið á loft. Sérfærðingar segja myndirnar …
Nýrri eldflaug norðurkóreska hersins skotið á loft. Sérfærðingar segja myndirnar sýna að hún sé bæði stærri og kraftmeiri en fyrri flaugar. AFP

Reuters-fréttastofan hefur eftir sérfræðingum að  hönnun eldflaugarinnar benda til þess að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, sé nú kominn nær því takmarki sínu að geta sent kjarnorkusprengju hvert á land sem er. Sérfræðingar telja flaugar Norður-Kóreu þó enn ekki búa yfir þeirri nákvæmni sem þurfi til að stýra þeim slíkar vegalengdir.

Ráðamenn í Norður-Kóreu birtu tugir mynda og myndbandsupptöku af skotinu og hefur Kim lýst því yfir að „loksins hafi tekist sú sögulega áætlun að gera ríkið að kjarnorkuveldi“.

Nálgast kjarnorkuvopn með raunsæjum og kerfisbundnum hætti

Reuters hefur eftir Joseph Bermudez, hjá 38 North stofnun í Washington sem fylgist með málefnum Norður-Kóreu, að ríkið sé með raunsæjum og kerfisbundnum hætti að að öðlast kjarnorkuvopn.

Bandarískir embættismenn hafa þó bent á að Norður-Kórea hafi enn ekki sýnt fram að að stýrikerfi flauganna búi yfir nægri nákvæmni.

Roh Jae-cheon, talsmaður suðurkóresku stjórnarinnar segir frekari rannsókna þörf til að hægt sé að meta að fullu styrk og hæfni Hwasong-15 eldflaugarinnar. Ljóst sé þó að hún sé mun þróaðri en forveri hennar Hwasong-14.

„Frumrannsókn okkar á myndunum sýnir skýran mun á milli Hwasong-15 og Hwasong-14 hvað varðar útlit sprengioddanna, samsetningu fyrsta og annars stigs flaugarinnar og stærðar hennar,“ sagði Roh á fundi með fjölmiðlum í dag.

Norður-Kórea segir flaugina hafa náð 4.475 km hæð og að hún hafi flogið 950 km á 53 mínútna flugtíma sínum, sem er hærra og lengra en nokkur norðurkóresk eldflaug hefur gert til þessa. Hún lenti svo í hafinu fyrir utan Japan.

Sýnilegt var strax í upphafi á myndum af skotinu að flaugin væri mun stærri og aflmeiri en fyrri flaugar.

„Þetta er mjög stór eldflaug,“ sagði Michael Duitsman, fræðimaður við  Centre for Nonproliferation Studies, stofnun sem vinnur að takmörkun á útbreiðslu kjarnavopna, í færslu á Twitter. „Aðeins nokkur ríki geta framleitt eldflaugar af þessari stærð og Norður-Kórea hefur nú bæst í hópinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert