Nýburinn reyndist á lífi

Mynd úr safni. Indverskur nýburi.
Mynd úr safni. Indverskur nýburi. AFP

Nýfætt barn sem hafði verið úrskurðað látið reyndist vera á lífi þegar átti að jarða það. Foreldrar þess sáu það anda og engjast um í plastpoka sem það hafði verið fært í. Læknar á einkarekinni læknastofu á Indlandi höfðu úrskurðað barnið, sem var tvíburi, látið nokkrum klukkutímum eftir fæðingu en systkini þess fæddist andvana. BBC greinir frá. 

Foreldrarnir drifu sig með barnið á næsta spítala þar sem þeim var greint frá því að barnið væri sprelllifandi. 

Atvikið hefur vakið mikla reiði í landinu þar sem gæði einkarekinna læknastofa eru dregin í efa. Slík þjónusta er ákaflega dýr. 

Ráðherrann Arvind Kejriwal hefur fyrirskipað að málið verði rannsakað. Heilbrigðisráðherrann í Delí lýsir atvikinu sem „glæpsamlegri vanrækslu“. 

Læknarnir sem tóku á móti börnunum hafa verið sendir í leyfi á meðan rannsókn stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert