„Ekki nálægt því að vera glæpur“

Brock Turner skömmu eftir að hann var handtekinn.
Brock Turner skömmu eftir að hann var handtekinn.

Brock Turner, sem var dæmdur í hálfs árs fangelsi í fyrra fyrir kynferðisbrot gegn meðvitundarlausri konu og sat inni í þrjá mánuði, hefur áfrýjað dóminum og krefst nýrra réttarhalda.

Mál hans vakti mikla athygli á sínum tíma og þótti mörgum dómurinn vægur en ákæruvaldið hafði farið fram á sex ára fangelsi yfir honum. Dóm­ar­inn í mál­inu, Aron Per­sky, sagðist við dóms­upp­kvaðningu hafa áhyggj­ur af því hvaða áhrif fang­els­is­dvöl­in hefði á Turner. 

Lögmenn Turners, sem er fyrrverandi sundgarpur í Stanford-háskóla, áfrýjuðu málinu í dag. Þeir segja að skjólstæðingur sinn hafi ekki hlotið sanngjörn réttarhöld, samkvæmt frétt CNN

Turner var ákærður eftir að tveir fyrrverandi nemendur við Stanford-háskóla urðu vitni að kynferðisbrotinu í janúar árið 2015 þegar þeir voru á hjólum sínum skammt frá skólanum. Turner var 19 ára á þessum tíma.

Hann var fundinn sekur í þremur ákæruliðum í maí 2016.

AFP

„Á bak við ruslagám“

Aðalástæðan fyrir áfrýjuninni er yfirlýsing frá saksóknara málsins þar sem hann greindi ítrekað frá því að kynferðisbrotið hefði átt sér stað „á bak við ruslagám”.

Lögmenn Turners segja að árásin hafi ekki átt sér stað þar heldur hafi fórnarlambið fundist „á algjörlega opnu svæði”. Með því að halda því fram að hún hafi átt sér stað „á bak við ruslagám” olli saksóknarinn því að kviðdómurinn hafði uppi fordóma gagnvart Turner.

Einnig kemur fram að Turner hafi ekki fengið sanngjörn réttarhöld vegna þess að fólk sem var tilbúið til að segja frá því í réttarsalnum hversu góð manneskja hann væri, var ekki látið bera vitni.

Sömuleiðis kemur fram í máli verjendanna að sönnunargögnin fyrir sekt hans hafi ekki verið nógu sterk.

„Við teljum að það sem gerðist hafi ekki verið glæpur,” sagði John Tompkins Turner, lögfræðiráðgjafi Turners. „Þetta gerðist en þetta var ekki nálægt því að vera glæpur.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert