Sendur í leyfi vegna fréttar um Flynn

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Bandaríska fréttastofan ABC hefur sent helsta rannsóknarblaðamann sinn í fjögurra vikna launalaust leyfi eftir að hann neyddist til að leiðrétta frétt um fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, Michael Flynn.

Flynn játaði á föstudag að hafa logið að bandarísku alríkislögreglunni, FBI, vegna tengsla sinna við Rússa.

Brian Ross, sem hefur lengi starfað fyrir ABC, sagði skömmu eftir vitnisburð Flynn að hann ætti eftir að bera vitni um að forsetinn hafi fyrirskipað honum að hafa samband við Rússa á meðan á kapphlaupi hans um forsetaembættið stóð. Fréttin varð til þess að hlutabréf í Wall Street hríðféllu.

Síðar leiðrétti ABC fréttina og sagði að heimildarmaður Ross hafi í raun gefið í skyn að fyrirskipanir Trump hafi komið á meðan hann beið eftir því að taka formlega við forsetaembættinu, að loknum kosningunum í nóvember.

„Við sjáum eftir þessu og biðjumst afsökunar á þeim alvarlegu mistökum sem við gerðum í gær,” sagði ABC í yfirlýsingu.

Trump hrósaði fréttastofunni á Twitter og lýsti yfir ánægju sinni með að hún hafi sent Ross í leyfi fyrir „hræðilega ónákvæma og óheiðarlega frétt um Rússa,” sagði hann og talaði um nornaveiðar í því samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert