Fór á Tinder-stefnumót og lést

Sydney Loofe var 24 ára.
Sydney Loofe var 24 ára.

Bandarísk kona sem hvarf sporlaust í síðasta mánuði eftir að hafa þekkst stefnumót í gegnum appið Tinder, fannst látin.

Í frétt BBC um málið segir að Sydney Loofe hafi verið 24 ára frá Lincoln í Nebraska. Hún sást síðast á lífi þann 15. nóvember. Þá var hún á leið til fundar við konu sem hún hafði kynnst á stefnumótaforritinu. 

Bailey Boswell, 23 ára, og  Aubrey Trail, 51 árs, eru í haldi lögreglu vegna málsins.

Lögreglustjórinn í Lincoln segir að upplýsingar sem aflað var á netinu hafi leitt til þess að lík Loofe fannst. Hann telur að ljóst að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. 

Hann segir að Loofe hafi mælt sér mót við Boswell í bænum Wilber, skammt frá Lincoln. Er hún mætti ekki til vinnu daginn eftir hófst leit að henni.

„Tilbúin á stefnumótið“ voru síðustu skilaboðin sem hún sendi á samfélagsmiðlum er hún sendi mynd af sér til vina sinna á Snapchat, kvöldið sem hún hvarf.

Lögreglan telur að Aubrey Trail og Bailey Boswell séu síðustu manneskjurnar sem sáu Loofe á lífi. Trail er meðleigjandi Boswell og eru ákærur á hendur þeim ekki samhljóða.

Boswell neitar sök og segir að hún hafi ekið Loofe til vinar hennar að stefnumótinu loknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert