Mengun hefur áhrif á heilaþroska barna

Skólabörn í Pakistan á göngu í mengunarskýi.
Skólabörn í Pakistan á göngu í mengunarskýi. AFP

Sautján milljónir barna undir eins árs anda að sér eitruðu lofti sem getur haft áhrif á heilaþroska þeirra. Barnastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UN children´s agency) greinir frá þessu.

Í frétt BBC um skýrslu stofnunarinnar kemur fram að ungbörn í suður-Asíu verða fyrir mestum áhrifum af menguninni, á því svæði búa yfir 12 milljónir barna þar sem mengun er sexfalt hærri en öryggisviðmið segja til um. Þá búa fjórar milljónir barna við mikla mengun í austurhluta Asíu og í Kyrrahafi.

Samkvæmt Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Unicef, getur mengað loftið valdið skaða á heilavef og dregið úr vitsmunaþroska barna.

Í skýrslu stofnunarinnar kemur fram að börn á svæðunum þar sem mengun er mikil búa yfir lélegra minni og fá lægri einkunnir en börn sem búa utan mengunarsvæðisins. Þá má einnig greina aukin hegðunarvanda sem rekja má til taugaskaða hjá börnum á mengunarsvæðum. Áhrifin geta verið langvarandi.

Búast má við að fjöldi barna á mengunarsvæðum hækki ef ekki verið gripið til aðgerða. „Á tímum aukinnar borgarvæðingar, þar sem ekki er gripið til fullnægjandi mengunarvarna, verða fleiri börn í hættu á komandi árum,“ segir í skýrslu Unicef.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert