Varð að yfirgefa heimili sitt í Hollywood

Helga Bryndís Ernudóttir framleiðandi er búsett nyrst í North Hollywood í Los Angeles í Bandaríkjunum. Hún vaknaði við þær fréttir í gærmorgun að skógareldar, sem geisað hafa í ríkinu frá því á mánudag, væru að færast nær heimili hennar.

„Þetta er bara algjört rugl, ég hef aldrei upplifað þetta áður,“ segir Helga Bryndís í samtali við mbl.is. Um er að ræða fimm skógarelda sem eiga sér mismunandi upptök.

Yfir fjörtíu manns hafa látið lífið í skógareldum í ríkinu það sem af er ári, en eldarnir í ár eru þeir mannskæðustu í sögu Kaliforníu. Einn er látinn í eldunum sem brutust út á mánudag. 

Frétt mbl.is: Gríðarleg eyðilegging í Kaliforníu

Eldurinn sem nálgaðist heimili Helgu Bryndísar nefnist The Creek Fire. „Mér leið rosalega illa, það var mikill reykur þar sem ég var þannig að ég tók bara hundinn minn og tæmdi húsið af öllu mikilvægasta dótinu og fór bara í vinnuna. Bíllinn minn er núna fullur af dóti sem er mér mikilvægast, en ég er ekki að fara heim til mín í bráð.“ Hún flutti sig á hótel sem er staðsett í öruggri fjarlægð frá eldunum, að minnsta kosti enn sem komið er.

Heimili Helgu Bryndísar er ekki á mesta hættusvæðinu, en mikill reykur hefur lagst yfir hverfið. „Það er ekki búið að rýma hverfið þar sem eldurinn er enn þá í fjöllunum þar sem er ekki jafnmikið af húsum. Fólk var beðið um að fylgjast með og sjá hvort að við þyrftum að rýma heimil okkar og ég ákvað, af því að það var svo rosalega mikill reykur og ég gat varla andað, að fara á hótel. Hér er minni reykur, ég er ekki nálægt neinum eldum.“

Creek-eldurinn hefur náð að breiða úr sér í Shadow Hills-hverfinu …
Creek-eldurinn hefur náð að breiða úr sér í Shadow Hills-hverfinu í Los Angeles. AFP

„Dregur fram það besta í náunganum“

Helga Bryndís starfar í Beverly Hills og eru margir samstarfsfélaga hennar búsettir á svæðum sem hefur þurft að rýma. „Ég er að vinna með fullt af fólki sem býr í Bel Air og Malibu og þau þurftu öll að yfirgefa heimili sín, sumir eru búnir að missa húsin sín og þetta er hrikalegt ástand.“

Frétt mbl.is: Eldurinn eirir engu

Vinnufélagar Helgu Bryndísar reyna að leggja sitt af mörkum, meðal annars með því að koma af stað söfnun fyrir þá sem hafa missti heimili sín í brunanum. „Þetta dregur fram það besta í náunganum, það eru allir búnir að bjóða fólki að gista hér og þar. Þetta er hræðilegt ástand en það eru allir mjög hjálpsamir.“

Eldarnir halda áfram að dreifast og hefur sá nýjasti, The Skirball fire, dreift sér yfir vesturhluta borgarinnar. „Þetta er rosalegt ástand og núna er verið að segja við okkur að við þurfum að vera með grímur næstu daga af því að reykurinn er svo mikill, það fer reyndar aðeins eftir hvar þú ert í borginni.“ Fjöldi fólks hefur leitað eftir aðstoð á spítölum borgarinnar vegna reyksins, þar á meðal eru samstarfsmenn og vinir Helgu Bryndísar.  „Þetta er svolítið lúmskt hvað reykurinn er mikill og hefur mikil áhrif á mann.“

Helga Bryndís Ernudóttir, framleiðandi í Hollywood, þurfti að yfirgefa heimili …
Helga Bryndís Ernudóttir, framleiðandi í Hollywood, þurfti að yfirgefa heimili sitt í borginni vegna skógarelda. Ljósmynd/Aðsend

Undirbúnari fyrir eldgos en skógarelda

Helga Bryndís segir að sem Íslendingur viti hún hvernig hún eigi að bregðast við jarðskjálfta eða eldgosi, en að hún hafi ekki hugmynd um hvernig hún eigi að bregðast við skógareldum. „Það hefur verið mikið talað um þurrka og maður var að reyna að undirbúa sig undir þetta en svo veit maður ekkert hvernig þetta á eftir að þróast.“ Hún mun því taka einn dag fyrir í einu. „Ég fylgist áfram með fréttum og ætli ég kíki ekki á húsið mitt og athugi hvort reykurinn sé farinn, en eins og er þá verð ég ekki heima hjá mér næstu dagana.“

Fimm skógareldar sem eiga sér mismunandi upptök breiðast nú út …
Fimm skógareldar sem eiga sér mismunandi upptök breiðast nú út í suðurhluta Kaliforníu. AFP
Skógareldarnir eru þeir mannskæðustu í sögu ríkisins.
Skógareldarnir eru þeir mannskæðustu í sögu ríkisins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert