Fimm barna móðir fórst í aurskriðu

Átján hús í Votlo á Osterøy voru rýmd eftir að …
Átján hús í Votlo á Osterøy voru rýmd eftir að aurskriðan féll og hafa nú tíu af 35 íbúum fengið að snúa aftur til síns heima. Kort/Google

Íbúar Votlo, lítils byggðarkjarna á Osterøy, rúma 20 kílómetra norðaustur af Bergen, eru harmi slegnir eftir að aurskriða skall á einbýlishúsi tæplega fertugrar fimm barna móður, Kristine Anette Andersen, í gær með þeim afleiðingum að hún grófst undir jarðveginum og lést.

„Ég frétti af þessu frá nágranna [hennar], við vorum fljótir á staðinn, nágrannarnir og ég, og byrjuðum að grafa með berum höndum. Ég var viðstaddur þegar hún fannst,“ sagði ættingi Andersen og nágranni í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Hann sagði lífsreynsluna í gær hafa verið þá verstu sem hann hefði upplifað.

Slökkvilið og frekari hjálparmannskapur kom von bráðar á staðinn en lífi Andersen varð ekki bjargað. Börn hennar sakaði ekki og þykir ganga kraftaverki næst en húsið er mjög illa farið eins og sjá má á myndum í fréttum NRK sem vísað er í auk þess sem dagblaðið VG fjallar um atburðinn og birtir myndir af vettvangi.

„Þetta er svo sorglegt og grimmt“

Andersen átti miklu vinaláni að fagna á Osterøy og var meðal annars þekkt fyrir starf sitt í þágu Hausvik-knattspyrnufélagsins en formaður þess, Ole Mjelde, sagði í viðtali við NRK að hin látna sé félagsmönnum mikill harmdauði. „Þetta er svo lítið samfélag [Osterøy], þetta er svo sorglegt og grimmt,“ sagði Mjelde.

Tom Sverre Tomren, sóknarprestur í Bruvik, Gjerstad og Haus, sem þjónar íbúum Votlo, bauð til minningarstundar í kirkjunni í Haus í gærkvöldi. „Þetta snertir alla hér á svæðinu. Þarna er fjölskylda sem margir þekkja og þá getur verið gott að hittast og vera saman í þessu,“ sagði Tomren. Hann sagði atburðinn ægilegan og að hann sé í raun ekki fyllilega búinn að átta sig á því sem gerst hafi enn þá.

Aurskriðan, sem var tíu metra breið, féll í kjölfar mikilla rigninga sem íbúar á vesturströnd Noregs hafa fengið að finna glöggt fyrir síðustu daga og ekki er óvenjulegt á þessum árstíma. Átján hús í nágrenni við hús Andersen voru þegar rýmd eftir að skriðan féll og þurftu í allt 35 manns að yfirgefa heimili sín. Hafa tíu þeirra nú fengið að snúa aftur en sérfræðingar á vegum almannavarnanefndar svæðisins eru enn að meta ástandið við híbýli hinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert