Varað við óveðri í Frakklandi

AFP

Veðurstofa Frakklands hefur gefið út viðvaranir á yfir 30 svæðum í dag en spáð er hávaðaroki og snjókomu. Appelsínugul viðvörun er í gildi á 34 svæðum en það er hæsta viðvörunarstig sem gefið er út af veðurstofunni.

Fólk er beðið að forðast óþarfa ferðalög og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir foktjón. Yfir 20 þúsund heimili í Norður-Frakklandi voru án rafmagns í gær og í hafnarborginni Calais var ekki hægt að koma ferju með um 300 farþega í höfn vegna óveðurs.

AFP

Í dag eru um 120 þúsund heimili í Frakklandi án rafmagns, þar af 90 þúsund heimili í Pays de la Loire. Þar er spáð snjókomu sem og víðar í norðurhluta landsins.

Í vesturhluta Frakklands er spáð 37 metrum á sekúndu og íbúar í Nouvelle Aquitaine hafa verið varaðir við mikilli ölduhæð. Íbúar við Miðjarðarhafið eru einnig varaðir við hættu á flóðum og íbúar beðnir að halda sig fjarri ströndinni. Í austri er úrhellisrigning og rok og í Ölpunum er spáð mikilli snjókomu. Þar er varað við hættu á snjóflóðum.

Í gær snjóaði mikið í Bretlandi og hefur ekki snjóað svo mikið þar í landi í fjögur ár. Fjölmargir ferðalangar lentu í vandræðum í Bretlandi og Þýskalandi en þar snjóaði hressilega.

Aflýsa þurfti yfir 300 flugferðum um flugvellina í Frankfurt í gær vegna snjókomu og kulda. Loka þurfti flugvellinum í Düsseldorf í fjórar klukkustundir síðdegis í gær. Eins urðu miklar seinkanir á lestarsamgöngum víða um álfuna vegna veðurs.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert