Eiginmaðurinn ákærður fyrir morð

Me,Melbourne Magistrate Court

Eiginmaður ástralskrar konu sem hvarf sumarið 2016 hefur verið ákærður fyrir morðið. Lík konunnar fannst átta mánuðum eftir hvarf hennar en gríðarleg leit var gerð að henni.

Borce Ristevski, 53 ára, var leiddur fyrir dómara í Melbourne dag þar sem hann var ákærður fyrir morð. Lögmenn hans segja að Ristevski muni lýsa yfir sakleysi. Lík Karen Ristevski, 47 ára, fannst í kjarrlendi í febrúar, átta mánuðum eftir að hún hvarf.

Hvarf hennar kom fólki mjög á óvart og þótti afar ólíkt henni. Lögreglan leitaði til almennings um að taka þátt í leitinni og það sama gerði fjölskylda hennar.

Lögmaður Ristevski, Rob Stary, sagði fyrir rétti í Melbourne í dag að skjólstæðingur hans myndi mótmæla ákærunni en ekki var óskað eftir því að hann yrði látinn laus gegn tryggingu.

Karen Ristevski sást síðast á lífi á heimili sínu í úthverfi Melbourne 29. júní í fyrra. Lík hennar fannst í þjóðgarði átta mánuðum síðar í um 50 km fjarlægð frá heimili hennar og fjölskyldunnar, Borce og 21 árs gamallar dóttur þeirra hjóna.

Hvarfið vakti mikla athygli og voru alls konar sögusagnir á lofti. Bróðir Boris hélt því fram að mágkona hans hefði stungið af til útlanda með því að framvísa fölsuðum skilríkjum á meðan stjúpsonur hennar hélt því fram að miklar deilur hafi verið innan fjölskyldunnar og að hún hafi ætlað að fara frá föður hans.

Frétt Age

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert