Misstu af Hringadróttinssögu vegna Weinstein

Ashley Judd (eftstu röð lengst til hægri) og Mira Sorvino …
Ashley Judd (eftstu röð lengst til hægri) og Mira Sorvino (önnur frá vinstri í miðju röð) eru á meðal þeirra kvenna sem hafa stigið fram og lýst áreitni af hálfu Har­vey Wein­stein. AFP

„Hér er þetta. Staðfesting á því að Harvey Weinstein setti feril minn út af sporinu, eitthvað sem mig grunaði en var ekki viss um,“ segir leikkonan Mira Sorvino á Twitter-síðu sinni í gær. Þetta segir hún í kjölfar þess að leikstjórinn Peter Jackson staðfesti að bæði Sorvino og Ashley Judd hafi verið settar á „svartan lista“ eftir upplýsingar frá fyrirtæki Weinsteins.

Bæði Sorvino og Judd hafa stigið fram og sagt frá því að Weinstein hafi áreitt þær kynferðislega. Weinstein hefur neitað bæði að hafa áreitt leikkonurnar og að hafa sett þær á svartan lista.

Vildi ráða þær í Hringadróttinssögu

Jackson leikstýrði meðal annars þríleiknum um Hringadróttinssögu, sem flestir þekkja, og var vinnsla kvikmyndanna í upphafi í samvinnu við Miramax, fyrirtæki Weinsteins. Jackson sagði frá því í vikunni að hann hafi á sínum tíma haft hug á því að ráða leikkonurnar tvær í hlutverk fyrir kvikmyndirnar vinsælu.

„Ég man eftir því að Miramax sagði okkur frá því að það væri martröð að vinna með þeim og við ættum að forðast þær í lengstu lög. Þetta var líklega í kringum 1998,“ sagði Jackson í viðtalinu.

„Á þeim tíma höfðum við enga ástæðu til þess að draga orð þessara manna í efa,“ sagði hann en segist nú gruna að viðvaranir Miramax hafi verið settar fram á fölskum forsendum.

„Nú grunar mig að okkur hafi verið gefnar falskar upplýsingar um þessar hæfileikaríku konur og bein afleiðing var að nöfn þeirra voru fjarlægð af listanum um leikaraval.“

Ashley Judd minnist þess á Twitter-síðu sinni að hafa fengið boð um að koma og fylgjast með undirbúning þríleiksins. „Þeir spurðu mig hvort tveggja hlutverka ég vildi heldur, svo skyndilega heyrði ég ekkert meira frá þeim.“

Weinstein neitar sök

Í tilkynningu frá fjölmiðlafulltrúa Weinstein segir að hann neiti ásökunum um að hafa komið að því að setja leikkonurnar á svartan lista. Þar segir að leikaraval fyrir Hringadróttinssögu hafi farið í gengum fyrir tækið New Line Cinema en ekki Miramax.

Peter Jackson hefur svarað því og segir að á fyrstu 18 mánuðum í framleiðslu kvikmyndaþríleiksins hafi hann átt margar samræður um leikaraval við Harvey og Bob Weinstein ásamt aðra innan fyrirtækisins. Áður en leikarar voru valdir hafi New Line vissulega tekið yfir en sökum viðvarana frá Miramax um Judd og Sorvino hafi þær ekki borið upp í samræðum við New Line um leikaraval.

BBC greindi frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert