Vill að Katalóníubúar fái áheyrn

Puigdemont vill fá áheyrn hjá ESB.
Puigdemont vill fá áheyrn hjá ESB. AFP

Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti heimastjórnar Katalóníu og leiðtogi sjálfstæðissinna, krefst þess að fá áheyrn hjá Evrópusambandinu eftir að þrír flokkar sjálfstæðissinna fengu nauman meirihluta í kosningum til héraðsþings sem fóru fram í gær. Flokkarnir fengu 70 þingsæti af 135. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Ég krefst þess að framkvæmdastjórn ESB eða aðrar stofnanir sambandsins hlusti, hlusti að minnsta kosti á fólkið í Katalóníu, ekki bara spænsk yfirvöld,“ sagði Puigdemont við blaðamann í Brussel í Belgíu fyrr í dag. Framkvæmastjórn ESB hefur hingað til stutt Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar í Sjálfstæðisdeilunni „Þeir hafa rétt til að taka stöðu með spænskum yfirvöldum en ég tel mikilvægt að hlusta á alla aðila í þessari deilu. Ég tel að íbúar Katalóníu eigi rétt á því að fá áheyrn hjá framkvæmdastjórninni.“

Puigdemont hefur dvalið í Belgíu frá því í október en hann flúði þangað ásamt fleiri fyrrverandi ráðherrum heimastjórnarinnar eft­ir að hafa ein­hliða lýst yfir sjálf­stæði Katalón­íu í and­stöðu við spænsk stjórn­völd.

Hann hefur sagt að niðurstöður kosninganna í gær séu sigur fyrir „lýðveldið Katalóníu“ og að spænska ríkið hafi tapað. Nú vill hann fá að koma sínum málstað á framfæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert