Föst á flugvelli í tvo mánuði

Fólkið hefur setið fast á flugvelli í Bankok í tvo …
Fólkið hefur setið fast á flugvelli í Bankok í tvo mánuði. AFP

Fjölskylda frá Simbabve hefur verið föst á flugvelli í Bankok í tvo mánuði, að sögn útlendingaeftirlitsins í Taílandi. Málið hefur vakið mikla athygli í landinu. 

Í fjölskyldunni eru fjórir fullorðnir og fjögur börn á aldrinum tveggja til ellefu ára. Þau hafa reynt að komast frá Taílandi frá því í lok október. 

Þau hafa hins vegar ekki áritanir í vegabréfum sínum til að komast þaðan og mega heldur ekki snúa aftur til Taílands þar sem áritun þeirra þangað er runnin út. Þau eru því strandaglópar á flugvellinum. 

Þessi undarlega staða þeirra komst í fréttir eftir að Taílendingur sagði frá henni á Facebook. Færslunni fylgdi mynd af honum sjálfum að færa einu barnanna jólagjöf. 

Færslunni var dreift víða og margir hafa velt fyrir sér hvernig það megi vera að fólkið hafi þurft að dvelja á flugvellinum svo lengi. 

Útlendingaeftirlitið segir að fjölskyldan hafi komið til Taílands í maí með ferðamannaáritanir í vegabréfum sínum. Þann 23. október reyndi fjölskyldan að fljúga til Spánar með millilendingu í Úkraínu en fékk ekki fararleyfi þar sem hún hafði ekki spænska vegabréfaáritun sem til þurfti. En þar sem ferðamannaáritun þeirra í Taílandi var útrunnin gat hún ekki yfirgefið taílenska flugvöllinn.

Eftirlitið segir að fjölskyldan neiti að fara aftur til Simbabve þar sem hún segist óttast um öryggi sitt vegna ólgunnar sem þar ríkir. 

Flugfélög sem nota flugvöllinn hafa útvegað fjölskyldunni mat hingað til. 

Herinn í Simbabve knúði forseta landsins, Robert Mugabe, til að segja af sér í nóvember. Forsetaskiptin höfðu ólgu í för með sér en hún er nú að mestu sögð úr sögunni og hafa yfirvöld þar í landi hvatt þá sem flúðu að snúa aftur heim. 

Fjölskyldan hefur hins vegar sótt um hæli utan heimalandsins og vonast til að fá slíkt utan Taílands þar sem þar er ekki tekið við flóttafólki.

Talsmaður flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Bankok segir að stofnunin sé að reyna að finna lausn á málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert