Tígrisdýr rifu þjálfarann í sig

Dýratemjarinn Ettore Weber þótti einn af þeim færustu.
Dýratemjarinn Ettore Weber þótti einn af þeim færustu. Skjáskot/La Republica

Fjögur tígrisdýr réðust á þjálfarann sinn á æfingu í fjölleikahúsi í suðurhluta Ítalíu með þeim afleiðingum að þjálfarinn lést. 

Ettore Weber, 61 árs dýratemjari, var inni í búri eins dýrsins þegar það réðist á hann. Þrjú tígrisdýr til viðbótar bættust síðan í hópinn og saman léku þau sér að þjálfaranum áður en sjúkraflutningamenn og starfsfólk fjölleikahússins náði til hans. Weber var úrskurðaður látinn á vettvangi.

Weber var hluti af Orfei-fjölleikahúsinu og var talinn einn besti dýratemjari á Ítalíu. Hann var umsjónarmaður stórrar dýrasýningar í fjölleikahúsinu þar sem kameldýr, sebrahestar og vísundar komu einnig við sögu. Atvikið átti sér stað einungis nokkrum klukkustundum áður en sýningin átti að hefjast. 

Tígrisdýrin hafa verið fjarlægð úr fjölleikahúsinu og flutt í safarígarð. Lögregla rannsakar tildrög slyssins. 

Orfei-fjölleikahúsið hefur verið í Triggiano á Ítalíu frá miðjum júní og til stóð að sýningar stæðu yfir til 14. júlí. Nú er framtíð fjölleikahússins hins vegar í óvissu. 

40 ríki hafa bannað, alfarið eða að hluta, villt dýr í fjölleikahúsum, þar á meðal 20 Evrópuríki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka