Franska uppfinningarmanninum Franky Zapata tókst í morgun að fljúga fyrstur manna yfir Ermarsundið á flugbretti.
Zapata, sem er fertugur að aldri, flaug frá Sangatte í norðurhluta Frakklands og lenti í Margrétarflóa í Dover á Englandi.
Flugbrettið er knúið áfram af með steinolíu sem hann geymir í bakpoka. Leiðin var 35,4 kílómetrar og tók ferðin 22 mínútur á flugbrettinu.
Zapata gerði í júlí fyrstu tilraun sína til að komast yfir sundið á brettinu, en mistókst ætlunarverk sitt vegna vandamála við eldsneytisskipti.
„Við bjuggum til tækið fyrir þremur árum… og núna höfum við farið yfir sundið, það er magnað,“ sagði Zapata við blaðamenn áður en hann brast í grát.
„Hvort að þetta sé sögulegur atburður eða ekki, ég er ekki manneskjan til að ákveða það, það mun koma í ljós.“
Zapata segist mest hafa náð allt að 170 kílómetra hraða í fluginu. Erfiðasta áskorunin var að skipta um eldsneytisbakpoka á leið sinni yfir sundið. Í fyrri tilraun sinni féll hann í sjóinn áður en hann gat náð til bátsins sem geymdi nýjan bakpoka. Í morgun var stærri bátur notaður auk þess sem þrjár þyrlur fylgdu Frakkanum.