Verður útgöngusamningur ríkisstjórnar Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, við Evrópusambandið samþykktur af breska þinginu? Þetta er stóra spurningin sem nú er spurt í tengslum við fyrirhugaða útgöngu Breta úr sambandinu.
Tilkynnt hefur verið að útgöngusamningur liggi fyrir sem bæði Evrópusambandið og breska ríkisstjórnin hafa samþykkt fyrir sitt leyti. Fyrir utan breska þingið þarf einnig samþykki þings sambandsins. En næsta skref er afgreiðsla þess breska.
Forsætisráðherrann hefur lýst útgöngusamningnum sem sanngjarnri málamiðlun og hafa forystumenn Evrópusambandsins tekið undir það. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, sagði á blaðamannafundi með Johnson í dag að hann fagnaði samningnum en harmaði hins vegar útgöngu Breta.
Lýðræðislegi sambandsflokkurinn (DUP) á Norður-Írlandi hefur lýst því yfir að hann geti ekki samþykkt samning Johnsons en flokkurinn hefur verið náinn bandamaður Íhaldsflokks forsætisráðherrans frá því að forveri hans, Theresa May, gerði samstarfssamning við hann eftir að hún missti þingmeirihluta sinn eftir þingkosningarnar 2017.
Fyrri útgöngusamningi sem ríkisstjórn May samdi um við Evrópusambandið var hafnað í þrígang af breska þinginu. Stjórnmálaskýrendur telja talsverðar líkur á að útgöngusamningur Johnsons verði samþykktur jafnvel þótt DUP leggist gegn samningnum.
Hins vegar verði að öllum líkindum mjög mjótt á mununum verði útgöngusamningurinn samþykktur. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, hefur þegar lýst því yfir að flokkur hans geti ekki samþykkt samninginn.
Hins vegar er búist við að nokkur hópur þingmanna Verkamannaflokksins kunni að hafa fyrirmæli Corbyns að engu og samþykkja útgöngusamninginn. Þá er talið líklegt að hópur fyrrverandi þingmanna Íhaldsflokksins, sem reknir voru úr flokknum fyrir að styðja lagasetningu sem ætlað var að koma í veg fyrir útgöngu án samnings, styðji samninginn.
Búist er við að neðri deild breska þingsins fjalli um útgöngusamninginn og greiði atkvæði um hann á laugardaginn. Verði hann samþykktur ganga Bretar formlega úr Evrópusambandinu 31. október og við taka viðræður um fríverslunarsamning.
Verði útgöngusamningnum hafnað er Johnson lögum samkvæmt skylt að óska eftir því við Evrópusambandið að útgöngunni verði frestað að minnsta kosti til 31. janúar. Hins vegar hafa forystumenn sambandsins sagt að verði samningnum hafnað verði ekki frekari frestun í boði. Standi Evrópusambandið við það er vart annað í boði en útganga án samnings.