„Grimmur, klaufskur og hættulegur“

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, fær ekki fallega einkunn í nýrri …
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, fær ekki fallega einkunn í nýrri bók um valdatíð hans. AFP

Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, er lýst sem grimmum, klaufskum og hættulegum þjóð sinni í nýrri bók sem nafnlaus embættismaður forsetaembættisins skrifar. 

Nafnlaus höfundur bókar um Hvíta húsið í tíð Donalds Trump líkir forsetanum við 12 ára gamalt barn í flugstjórnarturni. Fram kemur í bókinni, sem hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu, að fjölmargir starfsmenn Hvíta hússins íhugi að segja upp til þess að vekja athygli á ástandinu þar. 

Bók um Donald Trump í Hvíta húsinu.
Bók um Donald Trump í Hvíta húsinu. Skjáskot af kápu bókarinnar

Fjallað er um bókina, sem ekki er vitað hver skrifar, í Washington Post og New York Times í dag. 

Höfundur bókarinnar A Warning er sami ónafn­greind­i hátt­sett­i emb­ætt­ismaðurinn sem skrifaði grein í The New York Times í september um stöðu mála í Hvíta húsinu.

Rasisti og kvenhatari

Í útdrætti úr bókinni sem birtist í Washington Post er Trump lýst sem óhæfum einstaklingi sem sveiflast til og frá í skoðunum sínum. Eins séu yfirlýsingar hans bæði rasískar og lýsi kvenhatri í einkasamtölum. 

Eins og berrassað gamalmenni

Trump er sagður nálgast starf forseta eins og tólf ára barn sem fær að fara í starfsstöð flugumferðarstjóra. Barn sem ýti handahófskennt á hnappa á sama tíma og flugvélar skrensi stjórnlaust á flugbrautinni.

Eins séu færslur forsetans á Twitter að næturlagi þannig að háttsettir embættismenn fái oft „taugaáfall“ þegar þeir vakna á morgnana. Þetta sé eins og að koma á hjúkrunarheimili í dagrenningu og sjá öldruð ættmenni hlaupandi berrössuð um lóðina bölvandi og ragnandi um matinn í kaffiteríunni og áhyggjufullir starfsmenn reyna að stöðva þau.

„Þú ert orðlaus, þér er skemmt og um leið skammast þú þín — allt á sama tíma. Munurinn er sá að frændi þinn myndi sennilega ekki hegða sér á þennan hátt á hverjum degi. Ummæli hans eru ekki birt almenningi í fjölmiðlum daglega og hann þarf ekki að leiða ríkisstjórn Bandaríkjanna þegar hann fer loksins í buxurnar,“ segir í bókinni samkvæmt WP.

Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Stephanie Grisham, gagnrýnir bókina og ákvörðun höfundar að halda nafnleysi sínu. „Heigullinn sem skrifar þessa bók setti ekki nafn sitt við hana þar sem hún er full af lygum,“ sagði hún í gærkvöldi. Hún segir að fjölmiðlar eigi að fjalla um bókina sem skáldskap. 

Í frétt WP segir að höfundurinn hafi ákveðið að vera nafnlaus til þess að athyglin fari ekki frá forsetanum og verkum hans. Þetta á ekki að snúast um mig, segir hann. Þetta er um okkur. Þetta er um hvernig við viljum að forsetaembættið endurspegli land okkar og hvernig umræðan á að vera. Hann segir að ásakanir um heigulshátt særi hann ekki á nokkurn hátt. Eins útilokar hann ekki að stíga fram síðar. 

Frétt Washington Post

Frétt New York Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka