Hage Geingob, forseti Namibíu, segist ekki ætla grípa til óúthugsaðra aðgerða vegna áskana á hendur ráðamönnum landsins um spillingu. Namibíska NBC-sjónvarpsstöðin segir þetta hafa verið svar forsetans við gagnrýnisröddum sem segja hann hafa átt að reka Bernardt Esau sjávarútvegsráðherra og Sacky Shangala dómsmálaráðherra landsins, í stað þess að leyfa þeim að segja af sér.
Þeir Esau og Shangala sögðu af sér á fimmtudag eftir umfjöllun íslenskra og namibískra fjölmiðla um Samherjamálið svonefnda.
Sagði Geingob í samtali við NBC að hann hefði alltaf gefið ráðherrum í stjórn sinni kost á að útskýra mál sitt væru þeir ásakaðir um eitthvað. Það væri þá grunsamlegt að ásakanir um spillingu í stjórn hans kæmu fram svo skömmu fyrir kosningar, en þingkosningar fara fram í landinu 27. nóvember.
Mótmælt var framan við skrifstofu namibísku spillingarlögreglunnar (ACC) á föstudag vegna Samherjamálsins og höfðu lögfræðingar, opinberir embættismenn, stjórnmálamenn og aðgerðasinnar gert sér ferð víða að úr landinu til að taka þátt í mótmælunum.
Kröfðust mótmælendur þess að þeir ráðamenn sem sakaðir hafa verið um spillingu verði handteknir hið fyrsta, hald lagt á eignir þeirra og bankainnstæður frystar.
„Handtakið þá, handtakið þá, eða við handtökum þá sjálf,“ sagði einn mótmælendanna. „Við erum að sameinast gegn þeim sem stela frá okkur og kynslóðum framtíðar,“ sagði annar. „Fólk hefur misst vinnuna vegna sjálfselsku þeirra,“ sagði sá þriðji.